Afnám laga um Tækniháskóla Íslands

Fimmtudaginn 24. febrúar 2005, kl. 17:25:51 (5148)


131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:25]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ástæður eru fyrir því að hlutafélagsformið hefur mjög rutt sér til rúms og tekið við af öðrum formum í vaxandi mæli. Skýringin er auðvitað sú að það er sveigjanlegra og betur til þess fallið að hægt sé að hafa sterka stjórn á þeim rekstri og því fyrirtæki sem staðið er fyrir.

Það er líka eftirtektarvert í þessu samhengi að rifja það upp, hv. þm. Mörður Árnason, að Einar Már Sigurðarson, hv. 7. þm. Norðaust., vék sérstaklega að því í ræðu sinni að sér þætti ekki óeðlilegt að hlutafélag yrði stofnað um eignir þess væntanlega háskóla sem hér á að rísa en treysti á hinn bóginn ekki hlutafélaginu til að halda utan um reksturinn. Þetta þótti mér mjög athyglisverð skoðun. Ég deili henni ekki með honum en þetta sýnir með sínum hætti að jafnvel hann áttar sig á því að hlutafélagsformið hafi ákveðna yfirburði þegar kemur að því (Forseti hringir.) að halda utan um eignir hins nýja háskóla.