Afnám laga um Tækniháskóla Íslands

Fimmtudaginn 24. febrúar 2005, kl. 17:33:59 (5153)


131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:33]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Gunnar Birgisson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er afar merkileg umræða sem hér hefur farið fram um frumvarpið sem fjallar um að leggja niður Tækniháskólann til að hann geti sameinast Háskólanum í Reykjavík. Búið er að hjakka á málinu aftur og aftur og svo fer maður að spyrja sjálfan sig: Í hverju er ágreiningurinn fólginn? Hvað er svona voðalegt við málið? Það sem er náttúrlega vont við málið er að við erum að dröslast með það í þinginu allt of lengi. Hér bíða 2.500 nemendur í báðum skólunum eftir að fá að vita hver framtíð þeirra er og hundruð kennara og menn eru í hálfgerðu málþófi í þinginu. Þetta sýnir hvernig stjórnarandstaðan er, alla vega Vinstri grænir og Samfylkingin. (Gripið fram í.) Mér er ekki alveg ljóst hvar Frjálslyndi flokkurinn stendur í málinu. Hann var einu sinni með og svo var hann ef til vill á móti.

Ef maður fer yfir þetta voru Vinstri grænir mjög heiðarlegir í afstöðu sinni, þeir eru á móti, einfaldlega á móti málinu. Þeir eru á móti öllu sem heitir „einka“ eins og ég sagði í fyrri ræðu minni. Talsmenn þeirra hafa reynt að bera blak af þessu en ég ætla að lesa upp úr nefndaráliti 2. minni hluta sem er kannski óhætt núna af því búið er að fjalla svo mikið um það.

Hér stendur, með leyfi forseta:

„Annar minni hluti er ekki sannfærður um að reynt hafi verið til þrautar að sameina THÍ og verkfræðideild Háskóla Íslands.“ — Það er greinilega vilji Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. — „Það virðist skynsamlegt í svo smáu samfélagi sem Ísland er að efla frekar einn verkfræðiháskóla,“ — ríkisháskóla — „gera hann faglega sterkan og hæfan til að taka þátt í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum, heldur en að dreifa kröftunum á þann hátt sem hér er gert. 2. minni hluti tekur undir efasemdir sem koma fram í umsögn deildarforseta verkfræðideildar HÍ til nefndarinnar varðandi það hversu fáir nemendur hafi í raun fullnægjandi undirbúning í stærðfræði og raunvísindum til að standa undir verkfræðinámi í tveimur skólum á Íslandi.“

Þetta er náttúrlega algjörlega forpokaður hugsunarháttur. Maður hefði skilið þetta fyrir 30 árum, enda ráða nú fulltrúar gamla Alþýðubandalagsins ríkjum í báðum stjórnarandstöðuflokkunum og gömlu sjónarmiðin þeirra eru að koma fram. Það er ekkert við því að gera, það er alveg heiðarlegt hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að hún er á móti. Það er líka rétt að nemendur og starfsmenn beggja skólanna viti að þeir eru á móti því. Það er svo tortryggilegt af því þetta á að vera ehf-félag og af því að þetta er einkaskóli, það má ekki, það er alveg skelfilegt. Menn hafa ekki jafnrétti til náms ef það er einkaskóli, það er bara ekki hægt.

Svo komum við að hinum flokknum, Samfylkingunni. Þar hafa menn úr gamla Alþýðubandalaginu haft sig mest í frammi og eru líka á móti. Eins og ég gat um í fyrri ræðu minni var nefndarálit þeirra alveg með ólíkindum. Ef maður les það eru þeir í sumum greinum hálfpartinn með þessu, í öðrum á móti og megnið á móti en þó er það ekki alveg allt klárt. Þá langar hálfpartinn að vera með en samt verða þeir að vera á móti en þeir vita ekki alveg hvers vegna. Það er rétt að grípa niður í nokkur atriði, ég fór reyndar yfir þetta í fyrri ræðu minni og ætti kannski ekki að vera að velta hv. þingmönnum Samfylkingarinnar upp úr þessu. (Gripið fram í.)

En fyrsta setning nefndarálitsins hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Að mati 1. minni hluta eru skólar á háskólastigi líklega of margir og ber að skoða sameiningu þeirra eða nánari samvinnu.“

Seinna í álitinu segir:

„Þá er mikilvægt að skoða kosti þess að hefja kennslu í tæknifræðum í fleiri skólum.“

Svona er allt nefndarálitið.

Síðan koma gömlu kommarnir, með leyfi forseta:

„Færsla líftæknigreinanna til Háskóla Íslands er fordæmi fyrir tækninámi við skólann og ber að mati 1. minni hluta að kanna kosti þess til hlítar að kenna tæknigreinarnar í Háskóla Íslands.“

Þeir eru því komnir í sama ríkisháskólakerfið og Vinstri grænir. Það er enginn munur á þeim. (Gripið fram í.) Maður áttar sig ekki á þessu og það sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson fór yfir í ræðu sinni þar sem hann hótaði að beita valdboði eða breyta þessu úr einkahlutafélagi í sjálfseignarstofnun með góðu eða illu.

Ég held að báðir flokkarnir séu á móti þessum nýja skóla og þeir eru á móti framförum í menntamálum á Íslandi nema bara komi til þess ríkisháskólar. Þetta er alveg ótrúlegt árið 2005, maður trúir þessu ekki. Maður kemur saklaus úr sveitarstjórnarmálum inn á þing og hélt að það væru miklar framfarir en hér er mesta afturhald sem maður hefur nokkurn tíma kynnst og það af vinstri mönnum. En svona er þetta nú.

Til hvers er verið að stofna þennan háskóla? Til að gera hann sterkari, búa til meiri sóknarfæri og geta veitt betri menntun og kannski á hagstæðari kjörum en í ríkisháskólunum. Hérna fær einkaframtakið að njóta sín. Nei, það má ekki. Verið er að halda áfram á sömu leið og hefur verið haldið í menntamálum þjóðarinnar undanfarin tólf ár varðandi sókn og í dag erum við með eitt hæsta hlutfall af OECD-ríkjum í framlögum til menntamála. Þetta er beint og rökrétt framhald af þessari stefnu.

Þá kemur að því sem sumir hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa talað um, að menn ætli að fara að reka skólann út frá gróðasjónarmiði. Þetta er náttúrlega ótrúlegt og gamla aðferð kommana að snúa öllu á hvolf, öllu öfugt, svart verður hvítt og öfugt. Það er alveg skelfilegt að hlusta á þetta.

Ég ætla að lesa upp úr samþykktum fyrir Hástoð sem var stofnuð utan um hinn nýja skóla sem að standa Verslunarráðið, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins sem eru að leggja mikla fjármuni í þetta til að styrkja nám í þessum greinum á Íslandi, það sem atvinnureksturinn þarf á að halda í framtíðinni. Verið er að gera skólann enn þá hæfari í samkeppni. Það er mjög gott að hafa tvo tækniháskóla á Íslandi og auðvitað eru menn í samkeppni við skóla erlendis líka, það er alveg ljóst. Heimurinn er orðinn allt öðruvísi en hann var og langtum minni. Ef við tökum alla þá tækni sem er í margmiðlun og öðru slíku geta menn farið í nám í öðrum löndum án þess að vera staddir þar. Eftir 10, 15, 20 ár eigum við eftir að sjá allt annað í þessum málum en í dag.

En ég ætla að lesa úr samþykktum fyrir Hástoð ehf., 2. gr., með leyfi forseta:

„Hlutverk félagsins er að auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, m.a. með því að efla og auka menntun, rannsóknir og nýsköpun á háskólastigi, sem nýtist atvinnulífinu. Í þeim tilgangi rekur félagið háskóla, sem verður meginverkefni félagsins, og aðra þá starfsemi sem þjónað getur þessu hlutverki.“ — Eingöngu að reka háskólann. — „Hlutverk félagsins er ekki að afla hluthöfum þess fjárhagslegs ávinnings af rekstri.“

Samt koma menn upp og tyggja hvað eftir annað að verið sé að fara að reka skólann í hagnaðarskyni. Haldið þið að þetta sé hægt, þessi málflutningur?

„Félagið hyggst sinna hlutverki sínu varðandi menntun og rannsóknir meðal annars með gerð þjónustusamninga við stjórnvöld um fjárveitingar. Þá hyggst félagið sinna hlutverki sínu með því að taka að sér margvíslega þjónustu á sviði menntunar og rannsókna og þar m.a. samstarf við fyrirtæki, rannsóknastofnanir og aðrar menntastofnanir á Íslandi og erlendis.“

Í 5. gr., um réttindi og ábyrgð hluthafa, stendur, með leyfi forseta:

„Hluthafar bera ekki ábyrgð umfram hluti sína í félaginu. Engin sérréttindi fylgja hlutum í félaginu. Hluthafar þurfa ekki að sæta innlausn nema landslög kveði á um slíkt. Félagið má kaupa eigin hlut að lögmæltu hámarki. Óheimilt er að neyta atkvæðisréttar fyrir hluti í eigu félagsins.“

Svo er komið að 9. gr. um helstu verkefni og stjórnarhætti stjórnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Meginverkefni félagsins er að reka háskóla. Stjórn félagsins, sem er jafnframt háskólaráð háskólans, annast umsýslu eigna. Stjórnin markar stefnu félagsins og háskólans, ákveður námsframboð, inntökuskilyrði, gæði kennslu og aðra meginstarfstilhögun háskólans. Jafnframt ákveður stjórn skólagjöld og greiðslutilhögun þeirra. Stjórnin skal setja sér starfsreglur í samræmi við Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja, sem VÍ, SA og Kauphöll Íslands hafa gefið út. Þar skal m.a. fjalla um verkefni stjórnar og framkvæmdastjóra (rektors), og gæðakröfur til framkvæmdastjóra (rektors), kennara og annarra stjórnenda skólans. Stjórnin er í forsvari fyrir félagið og háskólann. Meiri hluti stjórnar ritar firma félagsins. Stjórnin ein getur skuldbundið háskólann fjárhagslega.“

Síðan, virðulegi forseti, segir í 11. gr. undir fyrirsögninni Ráðstöfun hagnaðar/taps:

„Hagnaði félagsins skal aðeins ráðstafað til að efla starfsemina í samræmi við hlutverk félagsins. Félaginu er óheimilt að verja hagnaði, réttindum eða eignum til annarra verkefna en þeirra sem samræmast hlutverki og starfsemi félagsins. Ekki verður greiddur arður út úr félaginu.“ — Ekki verður greiddur arður út úr félaginu.

Þetta eru samþykktir þessa nýja hlutafélags, Hástoðar. Svo halda menn því blákalt fram hér að verið sé að reka þetta í einhverju gróðaskyni, hagnaðarskyni, til að hluthafar geti fengið arð út úr félaginu, það komi einhverjir aðrir hluthafar inn í félagið og þeir muni heimta arð. Þetta er náttúrlega alveg hræðilegt, virðulegi forseti.

Síðan er spurningin hvort er betra, sjálfseignarstofnunarformið eða hlutafélagaformið. Hlutafélagaformið er þannig að í þessu tilfelli eru nokkrir hluthafar. Þeir geta orðið fleiri í framtíðinni, það er möguleiki á því. Sjálfseignarstofnunarformið getur orðið munaðarlaust í framtíðinni, það er alveg rétt. Það eru margar sjálfseignarstofnanir sem hafa kannski verið í rekstri og eru með fé án hirðis, það veit enginn hver á það og ekki neitt. Eitt ákveðið bankaform hér á landi er dæmi þess arna.

Það var því ákvörðun þessara aðila að fara þessa leið eftir að hafa legið yfir því. En það er eins og þessi ákvörðun aðila sé bara að véla um að gera þetta að hinu versta máli og hafa það sem gróðaapparat. Mér finnst, virðulegi forseti, að menn verði að vera heiðarlegir í málflutningi sínum þegar kemur að svona hlutum og fara með réttar staðreyndir, það finnst mér númer eitt.

Hvers vegna þessi skóli? Að mínu mati, eins og kemur fram í nefndarálitinu, finnst mér grundvallaratriði að hann verði staðsettur nálægt rannsóknastofnunum og algjört lykilatriði þannig að þessi nýi háskóli geti nýtt sér það ásamt Háskóla Íslands. Það hefur verið gagnrýnt af hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að þeir hjá háskólanum hafi ekki fengið fjármagn til að fara í meistaranám, hinir geti það. Þá spyr maður: Hvers vegna? Það er hvort tveggja að menn hafa ekki fengið fjármagn eða þá að menn hafa ekki verið sammála. Það vill svo til að ég kenndi við þennan ágæta Háskóla Íslands í tíu ár og mér er nokkuð kunnugt um hvernig málum er þar háttað.

Í dag er þetta þannig að í framtíðarmenntun í tæknigreinum á Íslandi er BS ekki nóg, Bachelor-gráða er ekki nóg, það eru alveg hreinar línur, það er búið að vera. Það var kannski hérna fyrir 20 árum, ekki í dag. Því er nauðsynlegt fyrir fólk að fá sér meistaragráðu og möguleikarnir byggjast náttúrlega á því að hægt sé að taka hana hér. Og það er ekki óalgengt að nemendur úr slíkum skóla geti farið í Háskóla Íslands og tekið meistaragráðu þar og öfugt, sem er mjög gott, eða þá að fólk fer erlendis. Ég spái því að í enn frekari mæli í framtíðarsamfélagi á Íslandi, tæknisamfélagi, hátæknisamfélagi, muni framhaldsnám í meistaranámi og doktorsnámi aukast verulega. Við höfum ekki legið á liði okkar, eins og ég sagði, og við erum einna fremstir meðal OECD-ríkja með framlög til menntamála af vergri landsframleiðslu. Ég held því að við ættum að vera stolt og ánægð með hvernig hefur gengið hér í menntamálunum og við siglum hraðbyri í þeim efnum.

Þegar búið verður að sameina þessa tvo skóla gefur það meiri möguleika á að auka valkostina. Talað hefur verið um að valkostum hafi fækkað í tæknifræðinámi og það stendur í einu nefndarálitinu, frá 2. minni hluta nefndarinnar, með leyfi forseta:

„Það liggur fyrir að greinum í tæknifræði verður fækkað og það er mat 2. minni hluta að sú staðreynd stangist á við yfirlýsingar eigenda um að efla beri tæknimenntunina til muna frá því sem verið hefur.“

Þetta er einmitt ekki rétt. Við erum með svörin frá skólanum, við fengum skrifleg svör þar sem þessu er lýst nákvæmlega, að valkostunum verður ekki fækkað. Þeir verða aftur á móti færðir inn í aðrar deildir, það er allt annað. Ég held að valkostirnir í framtíðinni eigi eftir að aukast eftir því sem skólinn dafnar og vex, og eftir því sem tengingarnar við þennan skóla verða meiri erlendis muni möguleikarnir verða betri og meiri.

Einnig kom fram í heimsókn kennara við Tækniháskólann sem voru mjög hlynntir þessum breytingum, hlynntir þessari sameiningu, að þeir hefðu ekki áhyggjur af stöðu sinni varðandi stjórn skólans, að þeir gætu ekki komist þar að, því að þeir væru í öllum ákvörðunum í deildunum og varðandi námið og hefðu ekki miklar áhyggjur af því og voru mjög ánægðir með það. Það eina sem þeir vildu hafa tryggt var að lífeyris- og eftirlaunaréttindi þeirra mundu verða óbreytt frá því sem áður væri. Rektor og stjórnarformaður hins nýja skóla fullvissaði okkur um að nefnd þriggja lögfræðinga væri að vinna í því máli og kennararnir báru ekki brigður á það.

Nemendurnir aftur á móti í þessum nýja skóla, þeir sem koma úr Tækniháskólanum, bæði úr raungreinadeildinni og tæknifræðinni, sögðu okkur að hespa þessu af í hvelli. Nemendurnir biðu eftir þessu.

En hvað gerist? Hérna fer stjórnarandstaðan í málþóf, þvælir málinu fram og til baka. Þetta eru skilaboð stjórnarandstöðunnar til þessa nýja skóla. — Hann er sko ekki velkominn, þessi nýi skóli. Við erum á móti honum, við ætlum að breyta lögum. Við ætlum að þæfa málið. — Þetta eru skilaboðin til 2.500 nemenda frá Samfylkingunni og Vinstri grænum. Ég átta mig ekki á hvar Frjálslyndi flokkurinn er, hvort hann er að koma eða fara í þessu máli. Þetta eru skilaboðin. Þetta er virðingin fyrir menntuninni, því skrefi sem menntamálaráðherra tók ásamt þessum aðilum, þremur aðilum, að sameina umrædda skóla.

Virðulegi forseti. Búið er að fara yfir málið hér hvað eftir annað og í ljós kemur eftir því sem fleiri og fleiri samfylkingarmenn tjá sig að þeir eru á móti þessu, Samfylkingin er á móti málinu. Það er alveg ótrúlegt. Hún er á móti framförum í menntakerfinu á Íslandi. Svo eru menn að auglýsa sig sem einhvern nútímastjórnmálaflokk. Menn þurfa nú bara að taka grímuna af og sjá þarna gömlu kommana, þeir stjórna þarna enn þá og vilja hafa þetta eins og þetta var í gamla daga og hafa allt ríkisrekið. Það er nú þannig.

Ég þarf kannski ekki, virðulegi forseti, að lengja umræðuna meira. Ég ætla þó að lesa hér upp, með leyfi forseta, umsögn frá Guðfinnu Bjarnadóttur, rektor Háskólans í Reykjavík og væntanlega nýs sameiginlegs háskóla, þar sem hún svarar um kosti hlutafélagaformsins fram yfir sjálfseignarformið.

„Háskólinn í Reykjavík (HR) hefur reynslu af sjálfseignarstofnunarforminu. Það hefur einmitt komið í ljós við þann rekstur að sjálfseignarstofnunarformið er ekki í öllum tilvikum hentugt, þótt takist hafi að sneiða hjá göllunum. Það hefur tekist í tilviki HR vegna þess að Verslunarráð Íslands hefur eitt verið staðfastur bakhjarl háskólans og tekið á sig fulla ábyrgð og forustu. Framkvæmdastjórn Verslunarráðsins hefur sinnt hlutverki sínu vel og tryggt það að háskólaráð HR var vel skipað. Lög um sjálfseignarstofnanir gera aftur á móti ráð fyrir að enginn eigi sjálfseignarstofnanir og þær geta því orðið munaðarlausar og stjórnast einvörðungu af starfsmönnum. Hugarfarið á bak við sjálfseignarstofnun er nánast það að þegar einhver hefur stofnað hana og lagt fram peninga í stofnfé þá sé afskipta viðkomandi ekki óskað frekar. Það er afar ábyrgðarlaust að reka háskóla með þeim hætti, sérstaklega þegar hlutverk háskólans er að styrkja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og taka að sér veigamikið hlutverk á háskólastigi með samruna HR og Tækniháskóla Íslands (THÍ).

Þegar fleiri aðilar verða bakhjarlar sameinaðs háskóla HR og THÍ og leggja fram fjármuni er eðlilegt að nota hlutafélagaformið. Þannig er tryggt að allir hafi aðkomu að stjórn og eigi sinn hlut og skyldur í þessu félagi. Einnig er ljóst hvar ábyrgðin liggur. Að öðru leyti er engin breyting á starfsemi eða stjórnun skólans nema ábyrgð bakhjarlanna er skýrari“ — Virðulegi forseti. Ábyrgð bakhjarlanna er skýrari — „og þar með sá stuðningur sem veittur er. Þegar nýr háskóli þarf að ráðast í fjárfestingar í nýju húsnæði, tækjabúnaði og rannsóknum, þá er ómetanlegt að hafa „eigendur“ sem axla ábyrgð. Það skiptir t.d. lánveitendur miklu máli og getur haft áhrif á lánakjör.“

Þetta er tilvitnun í umsögn rektors Háskólans í Reykjavík, Guðfinnu Bjarnadóttur.

Ég er ekki að segja að sjálfseignarstofnunarformið sé slæmt, alls ekki. Þessir aðilar völdu hlutafélagaformið, einkahlutafélag, þeir völdu þetta form og telja það betra en hitt og færa að því rök. Mér finnst það rangt hjá hv. þingmönnum, sérstaklega Samfylkingarinnar, að gera lítið úr því. Það er eins og þetta umrædda fólk sé að fara í þetta með einhverju ankannalegu hugarfari, en það er ekki.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en ég vona að við getum afgreitt þetta mál núna sem fyrst. Fólkið bíður, stúdentarnir bíða eftir þessu. (MÁ: … síðan í desember.) Starfsmennirnir bíða. (Gripið fram í.) Þetta var lagt fram í desember. Búið var að ákveða að fara í þessa sameiningu eins fljótt og hægt væri þannig að þetta er búið að ganga tiltölulega hratt fyrir sig. En svo er fólk í þinginu að reyna að þvæla þessu hér fram og til baka og gera þetta tortryggilegt. Mér finnst þetta lýsa stjórnarandstöðunni best og ef þetta fólk ætti að stjórna landinu þá sjá nú allir hvernig það mundi enda.