Afnám laga um Tækniháskóla Íslands

Fimmtudaginn 24. febrúar 2005, kl. 18:03:44 (5158)


131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:03]

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var ansi fjörug ræða hjá hv. þm. Gunnari Birgissyni. Ég er viss um að ef hann hefði setið hér í allan dag og hlýtt á ræður okkar hefði hann ekki skotið svona eins og hann gerði og upphrópanirnar kannski orðið örlítið mildari.

Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í að fara í einstök atriði heldur ætla ég að spyrja hv. þingmann nokkurs. Hann talar hér um komma og allaballa og annað vegna þess að þeir tali um ríkisrekna skóla. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir, varaformaður menntamálanefndar, sagði í umræðum í síðustu viku eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ég er þeirrar skoðunar að skoða beri kosti þess að hefja kennslu í tæknifræðum í fleiri skólum og þá sérstaklega þeim ríkisreknu til að fjölga valkostunum. Mér finnst að þetta ætti að geta gengið fljótlega, sérstaklega í ljósi yfirlýsinga menntamálaráðuneytisins.“

Þetta sagði hv. varaformaður menntamálanefndar í síðustu viku, og ég spyr: Er hv. formaður menntamálanefndar nú ósammála þessu?