Afnám laga um Tækniháskóla Íslands

Fimmtudaginn 24. febrúar 2005, kl. 19:33:57 (5181)


131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[19:33]

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég mótmæli orðum hæstv. ráðherra. Ég er ekki á móti hinum nýja háskóla. Ég er hins vegar á móti þeim vinnubrögðum sem þessi stjórnvöld hafa viðhaft við að koma á hinum sameiginlega háskóla. Ég er á móti því hvernig Tækniháskóla Íslands var aldrei gert kleift að ná flugi. Ástæðan var sú sem hæstv. ráðherra greindi sjálf frá í ræðu sinni: Það eru fjárlögin sem gilda í menntastefnunni. Ráðherrann sagði það í ræðu sinni áðan, það eru fjárlögin sem gilda.

Hvað hefur gerst? Ríkisháskólunum er haldið í fjársvelti, þeir jafnvel engjast í fjársvelti. En um leið og þeir segja já við einkavæðingartilboði ráðherrans þá er til meira af peningum. Svo er talað um að einhver andi sé leystur úr læðingi þegar einkaaðilar koma að málum og allt verði miklu ódýrara þegar einkaaðilar reka hlutina en þegar ríkið stendur að rekstrinum.

Þetta eru ekki málefnaleg eða frambærileg rök, virðulegi forseti. Það verður að bjóða upp á dýpri og málefnalegri umræðu um menntamál en hér er gert.