Rekstrarkostnaður Reykjavíkurflugvallar

Miðvikudaginn 02. mars 2005, kl. 13:01:05 (5216)


131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Rekstrarkostnaður Reykjavíkurflugvallar.

543. mál
[13:01]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson spyr í fyrsta lagi:

„Hver er árlegur heildarkostnaður íslenska ríkisins af rekstri flugvallar í Reykjavík?“

Flugmálastjórn hefur tekið saman heildarkostnað við rekstur flugvallarins síðustu þrjú ár eða árin 2002, 2003 og 2004. Í samantektinni hafa tekjur verið reiknaðar á móti gjöldum til að fá sem réttasta mynd af kostnaðinum. Heildarkostnaður við rekstur flugvallarins hefur lækkað á síðustu þremur árum eins og fram kemur í meðfylgjandi yfirliti.

Árið 2002 er almennur rekstrarkostnaður 45.099.000, aðflugsþjónusta í turni 130.362.000, snjómokstur 15.516.000, slökkviliðsþjónusta 72.192.000, vélaverkstæði 14.435.000, alls 277.604.000. Lendingargjöld, vopnaleitargjald, þ.e. tekjur, eru 52.279.000. Gjöld umfram tekjur eru því 225.325.000 á árinu 2002.

Á árinu 2003 eru hlutföllin svipuð og heildargjöld umfram tekjur eru 210.560.000 og á árinu 2004 eru þau 210.105.000. Frá árinu 2002 hefur þessi kostnaður því farið lækkandi að þessu leyti og sýnir að þarna hefur við endurbætur á flugvallarsvæðinu orðið hagstæðari rekstur.

Í öðru lagi er spurt:

„Hvað af þessum kostnaði gæti sparast ef allt flug yrði fært til Keflavíkurflugvallar?“

Svar mitt er þetta: Engar umræður hafa átt sér stað um flutning frá Reykjavík til Keflavíkur. Sparnaður eða öllu heldur lækkun kostnaðar á einum stað og hækkun á öðrum færi að öllu leyti eftir því hve mikið af fluginu yrði fært og hvaða áhrif það hefði á flug í heild þannig að um þetta er ekkert hægt að segja á þessu stigi. Það eru engar umræður og engin skoðun á þessu í gangi. Ég get ekki séð að það beri eingöngu að horfa til beinu útgjaldanna við rekstur vallarins, vegna þess að hagsbæturnar fyrir notendur flugvallarins eru í mínum huga aðalatriðið. Ef hv. þingmenn Samfylkingarinnar líta eingöngu á ríkisútgjaldaþáttinn þá eru þeir á miklum villigötum í þessu efni sem í svo mörgu öðru.

Í þriðja lagi er spurt:

„Gerir ráðherra ráð fyrir að íslenska ríkið eigi eftir að taka meiri þátt í rekstrarkostnaði Keflavíkurflugvallar en verið hefur til þessa? Ef svo er, um hvaða upphæðir gæti þar verið að ræða?“

Svar mitt er að ég bendi á að í gangi eru viðræður við Bandaríkjastjórn um varnarsamninginn og rekstur varnarliðsins. Málefni Keflavíkurflugvallar heyra undir utanríkisráðuneytið þannig að að sjálfsögðu svara ég engu um þetta, enda held ég að í miðjum þeim umræðum væri ekki skynsamlegt að tefla fram einhverjum áformum sem gætu bent til þess að við værum á einhverri leið sem við erum ekkert á. Ég vísa því til þess að utanríkisráðuneytið fer með málefni Keflavíkurflugvallar.

Að öðru leyti má um þetta segja að það virðist vera að hv. þingmenn Samfylkingarinnar séu í skipulögðum aðgerðum. Ekki veit ég hvort það eru eingöngu eða aðallega hv. þingmenn sem telja sig til stuðningsmanna Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem er í framboði til formanns í Samfylkingunni, vegna þess að það virðist vera að einhverjir telji afar mikilvægt að draga fram eitthvað sem gæti sannfært almenning í landinu um að atbeini hennar að Reykjavíkurflugvallarmálum gæti orðið henni fjötur um fót í þeirri kosningabaráttu. Ég held að það sé afar mikilvægt að þessum hlutum sé ekki blandað saman.