Umræðuefni í athugasemdum um störf þingsins

Fimmtudaginn 03. mars 2005, kl. 11:08:07 (5291)


131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Umræðuefni í athugasemdum um störf þingsins.

[11:08]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal gerir athugasemdir við fundarstjórn forseta vegna þess að hér fór fram umræða undir liðnum athugasemdir um störf þingsins um söluna á Símanum. Þetta form hefur verið að þróast, eins og hér hefur komið fram, á undanförnum missirum í það að þegar menn kveðja sér hljóðs um störf þingsins verður þetta æ líkara utandagskrárumræðum.

Það er kannski ekkert undarlegt, frú forseti, þar sem það tekur orðið afskaplega langan tíma að draga hæstvirta ráðherra upp í utandagskrárumræður. Sá sem hér stendur bíður þess að tvær umræður utan dagskrár verði teknar fyrir í þinginu. Önnur beiðnin var lögð fram í nóvember á síðasta ári, beiðni um að ræða framtíð varnarsamningsins við Bandaríkjamenn við hæstv. utanríkisráðherra. Sú beiðni var endurnýjuð í janúar og eftir samtal við hæstv. utanríkisráðherra í gær skilst mér að umræðan komist á dagskrá eftir 10–15 daga. Það var beðið um hana í nóvember og kannski er ekki undarlegt að menn nýti sér þá þetta form, athugasemdir um störf þingsins, til að reyna að ræða við ráðherrana þau mál sem hæst ber hverju sinni þegar svona langan tíma tekur að fá fram utandagskrárumræður.

Hin utandagskrárumræðan er við hæstv. heilbrigðisráðherra um framtíð bráðaþjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Það var búið að setja hana hér á dagskrá. Hæstv. ráðherra óskaði eftir því að umræðunni yrði frestað, sem ég varð við, um eina viku. Síðan eru liðnar þrjár vikur. Það er ekkert skrýtið þó að þingmenn komi hér upp og ræði störf þingsins þegar jafnilla gengur að draga ráðherra upp til að ræða þau mál sem hæst ber hverju sinni.

Það vakti athygli mína að fyrst tók hv. þm. Pétur Blöndal þátt í umræðunni um störf þingsins, eins og hver annar þingmaður. Eftir að hann hafði lýst hér skoðunum sínum og tekið að fullu efnislegan þátt í umræðunum bað hann um orðið til að mótmæla því að umræðan færi fram. Ég skil ekki svona athugasemdir og verð að segja bara alveg eins og er að ef þingmaðurinn er ósáttur við það að þessi umræða fari fram undir þessum lið hefði hv. þingmaður átt að koma strax í pontu, biðja um orðið undir liðnum um fundarstjórn forseta og sýna þá af sér þann mannsbrag að mótmæla því að þessi umræða færi fram með þessum hætti en taka ekki fyrst þátt í henni að fullu og mótmæla henni svo.