Norræna ráðherranefndin 2004

Fimmtudaginn 03. mars 2005, kl. 13:08:59 (5321)


131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norræna ráðherranefndin 2004.

516. mál
[13:08]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Byggðastefna sem grundvallast á skerðingu mannréttinda og misvægi atkvæða er eitthvað sem einu sinni var — en ekki byggðastefnan. Byggðastefnan á að grundvallast á allt öðru og eins og ég hef margoft sagt eigum við að leggja mikið á okkur til að rétta hlut þeirra byggða sem hallari fæti standa og búa við fólksfækkun og fámenni. Við eigum að beita ýmsum ráðum og stórum til að rétta hlut þeirra og gera þau búsetuvænni og öflugri en ekki að skerða mannréttindi annarra Íslendinga, það er alveg á hreinu.

Vissulega kom Samfylkingin að verkefninu á sínum tíma og málamiðlun sem var viðunandi á þeim tíma en að sjálfsögðu ekki endanleg lausn. Grundvallarstefna Samfylkingarinnar og jafnaðarmanna hefur legið fyrir frá 1927 þegar Héðinn Valdimarsson flutti þingmál og frumvarp um jöfnun atkvæðaréttar og að landið yrði gert að einu kjördæmi og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hefur endurflutt síðan. Þetta var því ekki endanleg lausn, þetta var málamiðlun á þeim tíma sem á að hverfa frá um leið og kostur er.