ÖSE-þingið 2004

Fimmtudaginn 03. mars 2005, kl. 16:15:22 (5363)


131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

ÖSE-þingið 2004.

544. mál
[16:15]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka formanni ÖSE-nefndarinnar, hv. þm. Pétri Blöndal, fyrir skýrslu nefndarinnar. Einnig þakka ég hv. þingmanni fyrir að beita sér fyrir betri vinnubrögðum er varða fjárhagsáætlun ÖSE en um það atriði hafa orðið miklar umræður á ÖSE-þingunum. Mig langar til að vitna örstutt í skýrsluna sem liggur fyrir í þessari umræðu, með leyfi herra forseta, en þar stendur:

„[Hv. þm.] Pétur [Blöndal] lagði til að vinnuhópur yrði settur á laggirnar til að skoða sérstaklega fjárhagsáætlun ÖSE og leggja fram tillögur. Forsetinn sagði fjárhagsáætlun ÖSE mjög torskilið plagg upp á 1.300–1.600 síður. Einungis fáar landsdeildir tækju þátt í umræðunni. Hann viðurkenndi að þingið þyrfti að taka betur á þessu máli og fagnaði því að Íslandsdeildin ætlaði að leggja nokkuð af mörkum til þessarar vinnu.“

Eins og ég segi hefur framganga Íslandsdeildarinnar í þessu máli vakið mikla athygli á þinginu og vona ég að sjálfsögðu að það muni skila okkur miklu.

Svo var annað atriði sem ég vildi aðeins ræða. Eins og hv. þm. Pétur Blöndal kom inn á áðan hefur ÖSE beitt sér varðandi mansal, kynlífsþrælkun og fleira og það er mjög ánægjulegt að íslensk stjórnvöld hafi ákveðið að veita 2 millj. kr. á vettvangi ÖSE til eflingar starfsemi ÖSE gegn mansali og kynlífsþrælkun kvenna og stúlkubarna í Bosníu-Hersegóvínu. Fjárframlag Íslands mun kosta áframhaldandi starfsemi innlends sérfræðings hjá sendinefnd ÖSE í Bosníu til eins árs. Starf sérfræðingsins er fólgið í aukinni fræðslu og eflingu vitundar almennings um mansal og ofbeldi gegn konum og börnum í Bosníu. Einnig sinnir sérfræðingurinn námskeiðahaldi, samskiptum við frjáls félagasamtök á þessu sviði, skipulagningu aðstoðar við fórnarlömb mansals auk ráðgjafar varðandi landsáætlun stjórnvalda í Bosníu gegn mansali. Enn fremur mun sérfræðingurinn veita ráðgjöf við skipulagningu sérstakrar neyðarsímalínu fyrir fórnarlömb mansals í Bosníu.

Fastanefnd ÖSE hefur lagt sérstaka áherslu á þennan málaflokk undanfarin þrjú ár og hefur framlag Íslands vakið verðskuldaða athygli á vettvangi ÖSE. Ég vil segja það hér að ég vona að ÖSE muni halda áfram að hlúa að þessum málaflokki, enda ekki vanþörf á. Margir hafa rætt það á ÖSE-þingunum að það sé töluvert á reiki hvert hlutverk ÖSE eigi að vera og ég held að þetta sé nákvæmlega málaflokkurinn sem ÖSE eigi að beita sér fyrir, ekki síst vegna þess fjölda ríkja sem á aðild að ÖSE.