Upplýsingaskylda fjármálastofnana til skattstjóra

Mánudaginn 07. mars 2005, kl. 15:11:41 (5379)


131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Upplýsingaskylda fjármálastofnana til skattstjóra.

[15:11]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Þetta málefni er margþættara en hv. þingmaður gefur til kynna. Skil á fjármagnstekjuskatti á Íslandi hvað einstaklinga varðar eru ekki vandamál vegna þess að bankastofnanir draga sjálfkrafa frá fjármagnstekjuskatt þegar árið er gert upp og standa skattyfirvöldum skil á þeim greiðslum. Hins vegar getur vel verið að eitthvað megi betur fara í þessum efnum og ég skal ekkert útiloka einhverjar breytingar hvað það varðar. Ég tel að við á Íslandi stöndum mjög framarlega í því að færa upplýsingar inn á skattframtal einstaklinga fyrir fram og ég hygg að ríkisskattstjóri hafi fyrst og fremst átt við að það mundi auðvelda einstaklingum ef búið væri að flytja fyrir fram inn á framtöl þeirra upplýsingar um peningalegar eignir í bönkum og ávöxtun þeirra og skattgreiðslu þar af. Það má vel vera að hægt sé að gera það með einhverjum hætti, hugsanlega þannig að þeir aðilar sem það vildu færu sjálfir fram á það eða gæfu heimild fyrir því að slíkt væri gert, þannig að hægt væri að nota tæknina í sem ríkustum mæli í þessu efni eins og verið hefur og einfalda fólki að ganga frá framtölum sínum með sem fyrirhafnarminnstum hætti. Ég skal ekki útiloka það. Ég er alveg viss um að um þetta mál er hægt að ná ágætri samstöðu, en við skulum ekki heldur gleyma því að mikilvægt er að viðhalda þeirri bankaleynd sem við höfum í bankakerfi okkar og sem bankamenn eru að sjálfsögðu bundnir af, eins og reyndar starfsmenn ríkisskattstjóra hvað varðar þær upplýsingar sem þeir hafa undir höndum.