Stöðvun á söluferli Landssímans

Miðvikudaginn 09. mars 2005, kl. 12:38:58 (5584)


131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Stöðvun á söluferli Landssímans.

530. mál
[12:38]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það var mjög aumt að hlýða á hæstv. forsætisráðherra. Hann vitnaði í því til staðfestingar að selja eigi grunnnetið að langflestir sérfræðingar mæli með þessu. Hverjir eru það?

Nær allir sem eru í samkeppni við Símann sjá því allt til fyrirstöðu að selja grunnnetið með Símanum. Það hefur ítrekað komið fram í umræðunni að ríkisstjórnin hefur takmarkaðan áhuga einmitt á samkeppni og það er áhyggjuefni. Til stendur að veikja samkeppnislögin og þegar spurt er að því á hinu háa Alþingi hvort Síminn, ríkisfyrirtækið sem ríkisstjórnin ber ábyrgð á, fari að samkeppnislögum fást engin svör. Mér finnst þetta alveg með ólíkindum.

Talað er um að stjórnarandstaðan vilji hækka skatta, en hver er raunin? Raunin er sú að hlutur hins opinbera í hlutfalli við þjóðartekjur hefur vaxið gríðarlega.