Fundartími fyrirspurnafunda

Miðvikudaginn 09. mars 2005, kl. 15:01:00 (5605)


131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Um fundarstjórn.

[15:01]

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í umræðum milli þingflokksformanna og forseta varð að samkomulagi að færa fyrirspurnatíma þingsins og byrja klukkan tólf en ekki hálftvö eins og venjan er vegna þess að fyrir lægju margar uppsafnaðar fyrirspurnir. En síðastliðna tvo miðvikudaga hefur það gengið þannig að við höfum byrjað klukkan tólf en síðan hafa verið gerð hlé á þingfundum og menn beðið eftir að þingfundur gæti hafist aftur, fáar fyrirspurnir hafa verið á dagskrá og við reiknuðum reyndar með utandagskrárumræðu í dag sem ekki varð af.

Ég óska eftir því, virðulegi forseti, að aftur verði tekið upp að byrja á þeim tíma sem venjan hefur verið, klukkan hálftvö, og dagskráin skipulögð þannig að þingmenn þurfi ekki að sitja og bíða jafnvel klukkutíma í þingfundahléi eftir því að fyrirspurnir þeirra komist á dagskrá. Það er eðlilegt og sanngjarnt að reikna með því að 12–15 fyrirspurnir séu á hverjum miðvikudegi, fleiri þurfa þær í raun ekki að vera miðað við þann fjölda sem liggur fyrir núna. Þessi vinnubrögð eru ekki góð og eru okkur til lítils sóma. Við þurfum að hafa það í huga að skipuleggja vinnu okkar betur en gert hefur verið undanfarið.