Fundartími fyrirspurnafunda

Miðvikudaginn 09. mars 2005, kl. 15:04:17 (5608)


131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Um fundarstjórn.

[15:04]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég hef mikla samúð með hæstv. forseta í þessu sambandi. Það er ekki heiglum hent að skipuleggja fyrirspurnatímana svo vel sé. Reynsla mín er sú, ég vil nefna það að gefnu tilefni vegna athugasemda frá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, að ég hef oftar en einu sinni lent í því að vera albúinn til að svara fyrirspurnum en þingmenn hafi þá ekki getað mætt. Þetta beinist því ekki eingöngu að því að ráðherrar séu ekki tilbúnir að svara heldur líka hinu, að þingmenn hafa ýmsum skyldum að gegna, t.d. í kjördæmum sínum, og geta þá ekki mætt. Ég held að það halli því ekki á ráðherra fremur en þingmenn hvað þetta varðar.

Aðalatriðið er auðvitað að taka eðlilegt tillit til fyrirspyrjanda og þeirra ráðherra sem um er að ræða hverju sinni. En ég hef mikla samúð með hæstv. forseta að þurfa að greiða úr þeirri flækju, þ.e. möguleikum þingmanna og ráðherra til að spyrja og svara á þessum tíma.