Stúlkur og raungreinar

Miðvikudaginn 09. mars 2005, kl. 15:33:17 (5621)


131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Stúlkur og raungreinar.

371. mál
[15:33]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mér þótti gott að hún fór yfir allt sviðið frá grunnskóla til háskóla því að þetta tengist jú allt saman.

Ég vil benda hæstv. ráðherra á að samkvæmt PISA-könnuninni sem fram kom um daginn komu stúlkur betur út í grunnskóla en drengir. Staðreyndin er hins vegar sú, eftir því sem ég þekki best til, að á hinu víðfeðma raungreinasviði velja stúlkur síður þyngstu stærðfræði- og eðlisfræðiáfangana sem er einmitt æskilegur og nauðsynlegur undirbúningur fyrir nám í t.d. verkfræði, eins og Sigurður Brynjólfsson bendir á. Ég tel því að þó að nemendur séu margir þurfi að efla kynningarstarf og hvatningarstarf í framhaldsskólunum þannig að stúlkur fari frekar í verkfræði og tæknifræði en þær gera í dag.

Ég held að það sé líka rétt sem ráðherra sagði að þessar greinar hafa ýmsar það orð á sér að vera erfiðar og jafnvel leiðinlegar. Það er verkefni sem við þurfum að takast á við, að breyta þeirri mynd því að eins og fram kom m.a. hjá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur er nauðsynlegt fyrir samfélagið að eiga vel menntaðar konur á þessu sviði eins og öðrum og gaman að sjá þær góðu fyrirmyndir sem hún dró fram í máli sínu.