Háskóli á Ísafirði

Miðvikudaginn 09. mars 2005, kl. 15:55:04 (5632)


131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Háskóli á Ísafirði.

522. mál
[15:55]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur flutt þingsályktunartillögu, m.a. um stofnun háskóla Vestfjarða. Þar segir m.a.:

„Sérhæft námsframboð skólans mótist af sérstöðu svæðisins með tilliti til umhverfismála, ferðamála, sjávarútvegs og tónlistarlífs, en í upphafi verði lögð áhersla á almennar undirstöðugreinar, svo sem fræðileg vinnubrögð, sálfræði, siðfræði, félagsfræði, aðferðafræði og tölfræði.“

Eins og þessi tillaga er sett fram, herra forseti, er í raun ekkert samhengi á milli þeirra undirstöðugreina sem lagt er til að skólinn hefji starfsemi með og þeirra sérhæfðu námsleiða sem kæmi til greina að skólinn tæki upp á sína arma síðar meir.

Síðan er rétt að vekja athygli á því, herra forseti, sem fram kemur í athugun Byggðarannsóknastofnunar Íslands, í skýrslu frá mars 2004. Þar segir um greiningu á þörf fólksins, einstaklinganna fyrir vestan, gagnvart háskólanámssetri á Vestfjörðum, að þátttakendur langaði fyrst og fremst að sækja í eftirfarandi nám: viðskiptagreinar, raungreinar og verkfræði, heimspekigreinar, iðngreinar, uppeldisgreinar, heilbrigðisgreinar, félagsvísindi og listgreinar.

Ég fæ ekki séð, herra forseti, að þessi upptalning á löngunum og þörfum Vestfirðinga gagnvart háskólanámi séu í nokkru samræmi við þær hugmyndir sem hv. þingmaður setti sjálfur fram í þingsályktunartillögu sinni. Það verður því miður að segjast eins og er, að það vantar samræmi á milli þeirrar tillögu sem hv. þingmaður bar fram á sínum tíma og þeirra þarfa og langana sem Vestfirðingar vilja uppfylla með námi á Vestfjörðum.

Ég held að sú leið sem við förum sé raunhæf leið til að efla og styrkja háskólastarfsemi á Vestfjörðum, koma upp staðbundnu námi á Vestfjörðum og efla fjarnámið sem hefur verið mjög giftudrjúgt fyrir Vestfirðinga, staðið vel fyrir sínu og fjölgað námsleiðum og tækifærum fyrir Vestfirðinga. Við stefnum að því að efla háskólastarfsemi á Vestfjörðum. Ég hefði frekar beðið um að hv. þingmenn færu nú héðan úr þingstóli, úr þessum svörtu fötum og litu björtum augum til framtíðar Vestfirðinga. Þetta getur verið fyrsta skrefið að stórum og öflugum háskóla síðar meir.