Almannatryggingar

Fimmtudaginn 10. mars 2005, kl. 17:19:08 (5740)


131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[17:19]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að mér leiðist að segja hér aftur og aftur að í Sjálfstæðisflokknum ríkir ekki það flokksræði sem hv. þingmaður og hv. þingmenn Vinstri grænna virðast vera vanir, að einn tali fyrir alla og allir fyrir einn eins og þeir séu samtengdir heilar. Þannig er ekki í Sjálfstæðisflokknum. Ég er talsmaður aðallega sjálfs míns.

Hv. þingmaður gat þess að nokkur frumvörp sem þeir hefðu flutt hefðu fengið jákvæðar umsagnir. Auðvitað fær það jákvæðar umsagnir þegar á að fara að bæta kjör einhverra því það vantar einn stóran aðila í þjóðfélaginu sem ætti að veita umsögn sem væri félag skattgreiðenda. Það vantar. Það er af einhverjum ástæðum ekki til. Slík félög eru til víða um Evrópu í flestum löndum og þau fá frumvörp til umsagnar, ræða málin frá sjónarhóli skattgreiðandans, þess sem á að greiða.

Hv. þingmaður klykkti svo út með því að segja að ég tali niður til velferðarkerfisins. Ég hef margoft sagt að velferðarkerfið er afskaplega mikilvægt. Það er hluti af kjörum manna og ég gæti ekki hugsað þá hugsun til enda ef ekkert velferðarkerfi væri til. En ég geri kröfu til að það sé skilvirkt og réttlátt, það sé ekki að taka skatta af lágtekjufólki og láta hátekjufólkið fá þá sem bætur. Það finnst mér alveg ótækt.

Svo talaði hv. þingmaður um Kárahnjúka. Ég gat ómögulega skilið hvað það kæmi þessu máli við. Það er framkvæmd sem virðist ætla að verða óskaplega arðbær vegna þess að álverð hækkar sem enginn átti von á og auðvitað mun það hækka frekar ef menn hafa einhverja trú á koldíoxíðmenguninni.