Evrópumál og störf Evrópustefnunefndar

Þriðjudaginn 15. mars 2005, kl. 14:07:46 (5808)


131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Evrópumál og störf Evrópustefnunefndar.

[14:07]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Stjórnarsáttmáli núverandi ríkisstjórnar er afskaplega skýr. Þar kemur fram, með leyfi hæstv. forseta:

„Samskiptin við Evrópusambandið verði áfram treyst á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og annarra samninga sem Ísland á aðild að. Fylgst verði grannt með samrunaferlinu í Evrópu og áhrifum þess á íslenska hagsmuni.“

Í framhaldi af þessu hefur verið skipuð nefnd allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi um Evrópumál. Það starf gengur afskaplega vel og er mjög merkilegt undir forustu hæstv. dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar. Þar hafa mörg mál verið rædd á níu fundum nefndarinnar og fram undan eru fundir þar sem mörg önnur mál verða rædd, m.a. hugmyndir um uppsögn EES-samningsins, áhrif inngöngu Noregs í ESB á EES-samninginn, hugsanlega inngöngu Noregs. Þannig er verið að fjalla um málið og fara vel ofan í það og ætti hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ekki að þurfa að spyrja um það vegna þess að fulltrúi frá stjórnmálaflokki hans á aðild að nefndinni.

Hins vegar hlýtur það að vera mjög eðlilegt að hver og einn stjórnmálaflokkur fjalli um þetta mál á sínum vettvangi. Framsóknarflokkurinn telur það skyldu sína að fjalla um mál sem varða framtíðina miklu eins og samskiptin við Evrópusambandið og við gerum það alveg án tillits til þess þó að Vinstri grænir telji enga ástæðu til þess frekar en mörg önnur viðkvæm mál sem varða framtíðina. Við skiptum okkur ekkert af því. Það er hins vegar afar þakkarvert hvað flokkur Vinstri grænna hefur afskaplega mikinn áhuga á störfum Framsóknarflokksins. Sérstaklega virðast þeir hafa áhuga á störfum okkar á þeim sviðum sem þeir vilja helst ekki fjalla um, sérstaklega að því er varðar ýmis mál er varða framtíðina.

Hv. þingmaður spyr: Hver eru þessi tímamót? Ég skal gjarnan svara því. Það hefði verið óhugsandi fyrir nokkrum árum í mínum flokki, Framsóknarflokknum, að þar hefði verið fjallað um Evrópumál með þeim hætti sem var gert á flokksþingi okkar. Þar kom margt ungt fólk sem vildi ræða þessi mál og gerir þá kröfu að þau séu rædd opin í flokknum. Er eitthvað óeðlilegt við það?

Í ályktun flokksins kemur fram að hugsanlegar aðildarviðræður við Evrópusambandið verði undirbúnar. Þar er minnst á aðild að Evrópusambandinu. Það er í fyrsta skipti sem það er gert á vettvangi flokksins. Það liggur sem sagt ljóst fyrir að flokkurinn sem slíkur útilokar það ekki að til aðildar geti komið í framtíðinni án þess að það hafi verið tímasett. Ég veit að Vinstri grænir útiloka það algerlega og ég held að þeir séu einir íslenskra stjórnmálaflokka sem útiloka það og þurfa þess vegna ekki að ræða málið. Ég veit ekki til þess að neinn annar íslenskur stjórnmálaflokkur útiloki það. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon verður að hafa þolinmæði gagnvart öðrum flokkum, að þeir ræði þessi mál á sínum vettvangi vegna þess að þeir flokkar telja það vera skyldu sína.

Ég átti hins vegar alls ekki von á því að hv. þingmaður sæi ástæðu til að koma hér upp til að gera flokksþing framsóknarmanna að sérstöku umræðuefni. En ég get glatt hann með því að flokksþing framsóknarmanna er ekki á dagskrá þegar ég ræði við starfsbræður mína á Norðurlöndunum. Það er aldrei dagskrárliður. Ég get fullvissað hann um það. En hitt er svo annað mál að ágætur vinur minn til langs tíma, Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, hringdi í mig vegna þessara mála og ég upplýsti hann um þau eins og mér bar að sjálfsögðu skylda til.

Ég hef rætt þessi mál jafnframt við forsætisráðherra Danmerkur, ekki á grundvelli flokksþings framsóknarmanna heldur á grundvelli þess umboðs sem ég hef sem forsætisráðherra í þeirri ríkisstjórn sem ég er í. En auðvitað er það svo og ég veit að hv. þingmaður veit það að þessi mál koma til tals með margvíslegum hætti í spjalli manna. Og það er út í hött hjá hv. þingmanni að koma með þá túlkun að þessi mál séu ekki á dagskrá í Noregi og þess vegna eigi þau ekki að vera á dagskrá á Íslandi. Það var nánast það sem hann sagði áðan. Auðvitað eru þessi mál á dagskrá í Noregi hvort sem þingmönnum líkar það betur eða verr og ef það er afsökun Vinstri grænna fyrir því að taka þau ekki á dagskrá sína er það mikill misskilningur.