Evrópumál og störf Evrópustefnunefndar

Þriðjudaginn 15. mars 2005, kl. 14:13:02 (5809)


131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Evrópumál og störf Evrópustefnunefndar.

[14:13]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Herra forseti. Umræðu hefur skort um kosti og galla Evrópusambandsaðildar fyrir Ísland og þess vegna eru væntingar bundnar við Evrópustefnunefndina sem opnar vonandi umræðu um þessi mál. Við höfum meðtekið yfir 4.000 ESB-gerðir á Alþingi. Þær voru 1.500 þegar við urðum aðilar að EES. Er betra að leiða tilskipanir gagnrýnislaust í lög en að fá aðild og fulla þátttöku í vinnuferli ESB-tilskipana? Sú spurning er aldrei rædd af alvöru á Alþingi.

Tilskipanir ESB eru forsögn og þær á ekki að taka upp í lög frá orði til orðs. Valkostir eru gefnir en við innleiðum þá jafnvel alla og dæmi eru um að gengið hafi verið of langt í innleiðingu tilskipana í lög. Ríkisstjórninni hafa reyndar verið kynnt þau mál. Alþingi er háð þekkingu ráðuneyta og stjórnsýslan er hvað hreyknust þegar tekst að vinna allt hratt og vel á meðan stóru ríkin taka sér tíma og tryggja vandlega skoðun mála með aðkomu þjóðþinganna. Alþingi á að vita að tækifæri felast í því hvernig tilskipun er innleidd. Þjóðþingin geta orðið hornsteinar í samrunaferlinu í Evrópu því þar eru sett allt öðruvísi lög sem miða öll að framtíðarmarkmiðum og því hvernig innri markaðurinn á að þróast. Þróun hans er mikilvægasta atvinnumál okkar Íslendinga og snýst ekki bara um stórfyrirtæki. Hún hefur mikla þýðingu fyrir litlu fyrirtækin í landinu. Íslenskur vinnumarkaður hefur blómstrað undanfarinn áratug af því Íslendingar nýttu sér tækifærin í EES-samningnum. Og Samfylkingin hefur valið upplýsta faglega umræðu um Evrópusambandsaðild sem flokkurinn allur hefur átt kost á þátttöku í og Samfylkingin hefur ákveðið að leggja hugsanlegan samning fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.