Evrópumál og störf Evrópustefnunefndar

Þriðjudaginn 15. mars 2005, kl. 14:17:27 (5811)


131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Evrópumál og störf Evrópustefnunefndar.

[14:17]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er víða verið að skoða mál er varða hugsanlega aðild einhvern tíma í náinni framtíð að Evrópusambandinu. Á vegum forsætisráðherra var skipuð sérstök Evrópunefnd eins og hér hefur verið gerð grein fyrir. Í skipunarbréfi þeirrar nefndar var m.a. lagt upp með að skoða hver yrðu áhrif hugsanlegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu og áhrif evrunnar á Íslandi svo eitthvað sé nefnt, auk þess sem hæstv. dómsmálaráðherra vék hér að um störf nefndarinnar.

Vonandi verður starf nefndarinnar markvisst og árangursríkt og áhugavert og fróðlegt það sem hún kemur til með að láta frá sér.

Þetta er hin opinbera stefna sem ríkisstjórnin vinnur með hér á landi. Það liggur hins vegar fyrir að Framsóknarflokkurinn hefur tekið málefni Evrópusambandsins sérstaklega til umfjöllunar og hugsar sér að skoða þau mál mjög náið í framtíðinni. Það hefur verið upplýst hér af hæstv. forsætisráðherra að sú stefnumótun hefði engin áhrif á stefnumótun ríkisstjórnarinnar og væri m.a. ekki rædd við erlenda sendimenn sem hann ætti viðræður við.

Frjálslyndi flokkurinn ítrekaði nýlega afstöðu sína um Evrópusambandið á landsþingi sínu og við ályktuðum um að aðild væri engan veginn tímabær. Við töldum að EES-samningurinn dygði Íslendingum vel og þar eigum við sameiginlega hagsmuni með Noregi. Við sögðum einnig að eftir inngöngu tíu nýrra aðildarríkja í Evrópusambandið væri skynsamlegt að sjá hver þróunin yrði. Á meðan samstaða er um samninginn með Norðmönnum og Íslendingum er ákvörðun um umsókn að Evrópusambandinu (Forseti hringir.) ástæðulaus að okkar mati.