Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum

Þriðjudaginn 15. mars 2005, kl. 17:05:21 (5854)


131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[17:05]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu alrangt hjá hv. þingmanni að ég tali fyrir hönd þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Ég er að tala á mínum eigin forsendum. Þessar skoðanir mínar um að við megum ekki festast í verðtryggingunni og verðum að nota íslensku myntina eins og aðrir eru skoðanir sem ég hef haft alla tíð, hef sagt þær opinberlega í á annan áratug, hélt því fram strax 1990 og 1991 að við ættum að stefna að því að komast út úr þessu um leið og verðbólgukófið væri farið. Þetta eru bara einkaskoðanir mínar sem ég hef látið í ljósi mjög oft bæði í ræðu og riti.

Ég gat þess líka áðan, herra forseti, að ég teldi þó miklu meira um vert að við skoðuðum í dag hvernig verðtryggingin er reiknuð. Þar er mjög alvarleg villa á ferðinni sem mun afvegaleiða hagstjórnina og er nú þegar farin að afvegaleiða hana. Ég er þeirrar skoðunar að Seðlabankinn þurfi að snúa við blaðinu, nú þegar þurfi að lækka vexti og reyna að komast í jafnvægisstöðu þannig að vextir á Íslandi verði mjög svipaðir og í Evrópulöndunum. Það getur verið rétt hjá Seðlabankanum að stefna að því að binda okkur að einhverju leyti við evruna, líkt og Danir gera, það getur verið leið, a.m.k. þessi missirin og þessi árin. Að verða hluti af evrunni gerist aldrei vegna þess að það kostar fyrst og fremst að við göngum í Evrópusambandið og það ætlum við aldrei að gera. Þótt við ætluðum að gera það tæki það ein átta ár, að ég ætla, þannig að það eru ekki viðbrögð við vandamálum dagsins að benda á slíkt.