Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum

Þriðjudaginn 15. mars 2005, kl. 17:07:18 (5855)


131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[17:07]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka innlegg hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar í þetta mál. Ég tel það mikilvægt og það kemur mér mjög skemmtilega á óvart hve mikill stuðningur kemur fram í þingsölum við það að stíga skref í að afnema verðtryggingu á fjárskuldbindingum. Ég bjóst satt að segja ekki við því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins tækju undir það. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er einn helsti sérfræðingur Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum og talar yfirleitt fyrir varfærni þegar efnahagsmálin og verðbólguþróunin eru annars vegar og því er mikilvægt að fá innlegg hans í þetta mál.

Okkur er auðvitað nokkur vandi á höndum um hvernig eigi að samræma skoðanir manna í þessu efni ef þeir vilja ná saman um tillöguna sem ég held að sé hægt. Ég held að það eigi að skoða það sem hér liggur fyrir um hvaða leiðir við eigum að fara í þessu efni. Ekki liggur fyrir allt það sem lagt er til í þessari tillögu um að settar verði fram áætlanir til nokkurra ára um afnám verðtryggingar miðað við mismunandi verðbólgustig og forsendur. Í það þurfum við að fara.

Ég vil líka taka undir hitt með hv. þingmanni að það er áhyggjuefni hvernig staðið er að mælingu verðbólgunnar. Það er ekki bara húsnæðisliðurinn eins og hv. þingmaður nefndi, heldur getum við nefnt nýleg dæmi eins og bensínhækkunina sem stóð í fjóra eða fimm daga um síðustu mánaðamót. Hún mældist verulega inni í vísitölunni en þeir drógu hana til baka, Essó-menn og þeir sem stóðu að þessari hækkun — var það ekki Shell líka? Ég held reyndar að það hafi verið allir aðrir en Atlantsolía. Hækkunin var svo dregin til baka eftir 4–5 daga en hafði samt þessi áhrif á vísitöluna þannig að ég tek undir með hv. þingmönnum að það þurfi að skoða.

Ég spyr hv. þingmann: Hver er skoðun hans á því að bæði séu í gangi breytilegir vextir og verðtrygging? Er það ekki eitthvað sem hv. þingmaður er ósammála og telur að þurfi að breyta?