Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum

Þriðjudaginn 15. mars 2005, kl. 17:29:22 (5863)


131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[17:29]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Því miður hafa íslenskir sparifjáreigendur ekki góða reynslu af því að treysta því að hafa sameiginlega hagsmuni með öðrum. Allar götur frá síðari heimsstyrjöld fram til 1970–1980 var hér á landi verðbólga og neikvæðir vextir og spariféð rýrnaði. Fyrst mjög hægt þannig að menn tóku varla eftir því, en svo rýrnaði það mjög hratt upp úr 1970 og fram til 1980. Það er allur sameiginlegi hagurinn sem menn höfðu af því að viðhalda verðgildi sparifjár. Þess vegna var verðtryggingin neyðarúrræði til að búa til traust sparifjáreigenda á því að spara og það tókst, þeir fóru að spara, Íslendingar. Þetta traust er enn þá í lamasessi eftir 40–50 ára reynslu af því að hafa neikvæða vexti og ég held að við þurfum að taka tillit til þess að fólkið sem fékk svona slæma reynslu í áratugi geti treyst á verðtrygginguna áfram sérstaklega, sem skiptir sífellt minna og minna máli, vegna þess hvað efnahagsstjórnin er orðin góð.

Auðvitað eiga menn að hafa sameiginlega hagsmuni af myntinni og ég fellst alveg á að eðlilegt væri að hafa ekki verðtryggingu. En vegna hins mikla vantrausts sem íslenskir sparifjáreigendur hafa lent í á síðustu öld og búa, að ég held, enn að verðum að hafa verðtrygginguna áfram.