Þjónustusamningur við Sólheima

Miðvikudaginn 16. mars 2005, kl. 12:44:20 (5894)


131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Þjónustusamningur við Sólheima.

596. mál
[12:44]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í skýrslu sinni frá því í maí 2002, sem vísað er jafnframt til í skýrslu í apríl 2003, bendir Ríkisendurskoðun á að framlögum ríkisins til Sólheima hafi verið ráðstafað með nokkuð öðrum hætti en samningar kváðu á um. Framlög ríkisins til Sólheima voru á sínum tíma byggð á niðurstöðu þjónustumats, samanber lög um málefni fatlaðra.

Í skýrslunni segir að bæta þurfi verulega mönnun og fagstarf og nauðsynlegt sé að þjónusta við fatlaða á Sólheimum lúti betur lögum og reglugerðum um málefni fatlaðra og tengist með markvissari hætti annarri þjónustu við fatlaðra á landsvísu.

Á síðasta ári var gerður nýr þjónustusamningur við Sólheima. Ég spyr hvernig þessi mál hafi verið tryggð í samningnum, m.a. að opinbert fé renni til þjónustu við fatlaða þar sem hækkunin á samningnum virðist nema um 30 millj. kr. á ársgrundvelli, a.m.k. virðist hann vera 181 millj. á árinu 2005 en var 150 millj. áður.

Ríkisendurskoðun bendir á að samkvæmt þjónustumati hafi verið reiknað með umönnun, búsetustuðningi og heimiliseiningum sem jafngiltu 34 stöðugildum starfsmanna á meðan stöðugildi við þennan þjónustuþátt hafi á árunum 2000–2001 verið helmingur af því sem fólst í samningi. Í skýrslunni er talið að um 73% framlaga hafi farið til fatlaðra. Það sem umfram var af greiðslum hafi farið í annað, að á árunum 1996–2001 hafi um 158 millj. samtals farið í annað. Þeim fjármunum sem hafi sparast hafi verið ráðstafað til mun umfangsmeiri atvinnurekstrar og viðhalds og stofnkostnaðar húsnæðis en samningur var um. Á sama tíma er þess getið að skortur sé á fagfólki, þroskaþjálfum og öðru sérhæfðu starfsfólki.

Í þjónustusamningnum sem gerður var fyrir tíu mánuðum eru ákvæði sem leitt geta til tortryggni. Meðal annars er í lið 2.2 fjallað um ráðningu starfsfólks en ekki hve margir skuli ráðnir, hvers konar menntunar sé þörf eða fjallað um kröfur eða kvaðir. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvað er gengið út frá mörgum starfsmönnum í samningnum?

Ekki virðist nægilega frá því gengið að unnt sé að draga úr þjónustu og nýta fjármagn í annað. Til dæmis er stjórn sjóðsins heimilt að nýta rekstrarafgang til myndunar varasjóðs allt að 4% og miðað við 173 millj. eru það allt að 7 millj. sem nota má til framkvæmda samkvæmt skipulagsskrá Sólheima. Hvað þýðir þetta?