Þvingunarúrræði og dagsektir umhverfisstofnana

Miðvikudaginn 16. mars 2005, kl. 13:46:30 (5922)


131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Þvingunarúrræði og dagsektir umhverfisstofnana.

556. mál
[13:46]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil taka skýrt fram að þvingunarúrræðin eru samkvæmt lögunum ekki hugsuð sem refsing heldur úrræði til að knýja fram úrbætur á því sem er ábótavant. (Gripið fram í.) Það er meginkjarni málsins.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson tók undir málflutning hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar og taldi að til greina kæmi að dagsektir sætu að einhverju leyti eftir sem sektir en ljóst er að þannig er úrræðið ekki hugsað. Ég hef ekki skoðað málin frá því sjónarhorni að þessu bæri að breyta. Mér finnst líka að það hafi komið mjög skýrt fram í svari mínu áðan að dagsektirnar eru þegar öllu er á botninn hvolft mjög virkt úrræði til að knýja fram úrbætur vegna þess að í nánast öllum þeim tilvikum sem ég tilgreindi náðust fram úrbætur. Það tel ég að sé meginmálið í þessu öllu saman.