Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 17. mars 2005, kl. 12:51:13 (5998)


131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[12:51]

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er leitt að heyra að það er eins og hv. þingmaður hafi ekki enn skilið út á hvað málin ganga og er hann þó hvort tveggja í sveitarstjórn og alþingismaður.

Hv. þingmaður spurði um hvaða tillögur væru uppi varðandi sameiningu á Suðurnesjum. Fyrir liggur samkvæmt skoðanakönnun sem gerð hefur verið að um 70% þjóðarinnar er almennt hlynnt sameiningu og stækkun sveitarfélaga. Minnstur stuðningur er við það á Suðurnesjum. Hins vegar verður tillaga sameiningarnefndar lögð fram og um hana munu íbúar í þeim sveitarfélögum sem hér hafa verið nefnd taka hina endanlegu ákvörðun. Það er lýðræðisleg leið.

Af því hv. þingmaður ber við fákunnáttu um hvað standi í sameiningartillögunum hlýtur maður að spyrja hvort samgangur á milli einstakra þingmanna Samfylkingarinnar sé lítill, því að a.m.k. tveir þingmenn Samfylkingarinnar hafa tekið virkan þátt í störfum sameiningarnefndar og það er á tillögum þeirra eins og nefndarinnar allrar sem tillögurnar eru birtar. Ég hvet því hv. þingmann til að snúa sér til félaga sinna í Samfylkingunni sem örugglega munu glaðlega upplýsa hann hvernig sameiningarnefndin hefur unnið, á hverja hún hefur hlustað og hverjar tillögur hennar eru.

Hv. þingmaður gerir mikið úr vandræðagangi. Ég er ekki sammála því að þetta sé vandræðagangur. Það eru miklir fjármunir í húfi í skiptingu tekna milli ríkis og sveitarfélaga. Menn hafa einfaldlega verið að semja um það milli ríkis og sveitarfélaga. Það hefur tekið lengri tíma en ætlað var, en þó liggur ákveðin niðurstaða fyrir núna þó ekki allir séu sammála um hana. Það er mikill áfangasigur og 9,5 milljarðar til sveitarfélaga hlýtur að teljast áfangasigur.