Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 17. mars 2005, kl. 18:21:45 (6072)


131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:21]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir þá mestan part málefnalegu umræðu sem farið hefur fram hér í dag um þetta mál. Það er augljóst og hefur komið fram í máli flestra þeirra sem hér hafa talað að of mörg sveitarfélög eru örsmá og eiga erfitt með að uppfylla kröfur löggjafans og íbúanna um þjónustu og framkvæmd verkefna. Það eru dæmi um að sveitarfélögin sinni nánast öllum sínum verkefnum í samvinnu við önnur og verji til þeirra meginhluta tekna sinna.

Rannsóknir gefa vísbendingar um að ákveðinn lýðræðishalli sé í smáum sveitarfélögum, kosningaþátttaka er minnst í fámennustu sveitarfélögunum þar sem kosið er óbundinni kosningu og konur virðast eiga erfitt uppdráttar í kosningum til sveitarstjórna í þeim sveitarfélögum. Meiri fjarlægð skapast fyrir íbúa við ákvarðanatöku þar sem ákvarðanir eru teknar á vettvangi byggðasamlaga og héraðsnefnda en ekki sveitarstjórna. Mikill munur er á stærð sveitarfélaga sem skapar vandamál og stendur í vegi fyrir áformum um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Þetta eru aðeins nokkur atriði meðal hvata þess að ráðist var í það verkefni sem hér hefur verið til umræðu.

Hæstv. forseti. Útsvarsheimildir sveitarfélaganna hafa komið nokkuð til umfjöllunar. Í því ljósi vil ég nefna nokkur atriði. Það er ljóst að staða sveitarfélaganna er mjög mismunandi, mörg þeirra hafa einhverra hluta vegna ekki séð ástæðu til að fullnýta tekjustofna sína þrátt fyrir hallarekstur. Á árinu 2004 nýttu einungis 67 af 101 sveitarfélagi sér hámarksálagningarprósentu útsvars. Miðað við álagningarstofn útsvars ársins 2002 eru vannýttar útsvarstekjur sveitarfélaganna um 1.100 millj. kr. Í ár eru það um 30 sveitarfélög sem ekki nýta sér heimild til hámarksálagningar útsvars.

Vannýttir tekjumöguleikar sveitarfélaganna vegna fasteignaskatts eru síðan enn meiri, nærri 4 milljarðar, þar af um 1 milljarður utan höfuðborgarsvæðisins.

Það er líka ástæða til, hæstv. forseti, að nefna hér að rekstrarafgangur er ekki óþekkt fyrirbæri hjá sveitarfélögunum sem betur fer. Sem dæmi er Akureyrarbær rekinn með um 240 millj. kr. afgangi á nýliðnu ári. Staðan er hins vegar afar misjöfn í sveitarfélögunum eins og margoft hefur komið fram hér í dag og tillögur tekjustofnanefndar taka einmitt mið af því.

Nú liggja fyrir fjárhagsáætlanir sveitarfélaganna vegna ársins í ár, og samkvæmt þeim verður samanlagður afgangur af rekstri sveitarfélaganna um 1,4 milljarðar kr. á árinu en auðvitað með þeim fyrirvara, hæstv. forseti, eins og áður að þessum tekjum er misskipt milli sveitarfélaganna.

Ég ætla að verja nokkrum tíma í að svara því sem til mín hefur verið beint í dag. Ég er sammála þeirri grundvallarhugsun sem birtist í máli hv. þm. Helga Hjörvars um lýðræðið. Við búum við fulltrúalýðræði, þess vegna göngum við til kosninga á fjögurra ára fresti. Sveitarfélögin hafa svigrúm til ákvörðunar útsvarsins með ákveðnu hámarki og lágmarki. Ég tel hins vegar alls ekki að hækkun útsvarsprósentunnar nú mundi bjarga fjárhag sveitarfélaganna almennt. Minni sveitarfélögin og þau verst settu hefðu lítið sem ekkert út úr slíkri aðgerð, hún væri fyrst og fremst skattur á landsbyggðina því að stærstu sveitarfélögin nýta ekki einu sinni núgildandi heimildir, eins og áður hefur komið fram í máli mínu.

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson beindi nokkrum spurningum til mín, í fyrsta lagi hvað fælist í hugmyndum um endurskoðun sveitarstjórnarlaganna. Í fylgiskjali merktu fskj. II með tillögum tekjustofnanefndar kemur fram í 4. lið að sameiginlega verði unnið að endurskoðun á sveitarstjórnarlögum sem miði að því að tryggja vandaða fjárstjórn sveitarfélaganna og málsmeðferð varðandi einstakar fjárhagslegar ráðstafanir sveitarstjórna svo og ákvæði sveitarstjórnarlaga um hlutverk og skipan eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Þetta er eitt dæmi um það hvar tekjustofnanefndin telur að ástæða sé til að taka sveitarstjórnarlög til endurskoðunar og í því sambandi verði sérstaklega litið til reynslu Norðurlandanna af eftirliti með sveitarfélögunum og samvinnu milli ríkis og sveitarfélaga um fjármál þeirra.

Hv. þingmaður spyr einnig hvernig eigi að úthluta aukaframlagi úr jöfnunarsjóði. Eins og fram kom í fyrri ræðu minni í dag er gert ráð fyrir að því framlagi verði úthlutað samkvæmt reglum sem samdar verði í samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Útfærsla á þeim liggur að sjálfsögðu ekki fyrir.

Í þriðja lagi spyr þingmaðurinn hvers vegna lög og reglugerðir hafi ekki verið kostnaðarmetin út frá hagsmunum sveitarfélaga og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson kom reyndar að því sama hér í dag. Lög og reglugerðir hafa verið metin í sérstöku tilraunaverkefni með þátttöku tveggja ráðuneyta lengst af, umhverfisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis, frá árinu 2003 og hið þriðja bættist við í fyrra, menntamálaráðuneyti. Tillaga tekjustofnanefndar gerir ráð fyrir að þetta verklag verði fest í sessi til framtíðar og taki til allra ráðuneyta. Þetta er afar mikilvægt atriði, hæstv. forseti, og getur skipt sköpum um rekstur sveitarfélaganna til framtíðar litið sem og hvað varðar fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

Í fjórða lagi spurði hv. þm. Einar Már Sigurðarson hvort fyrir lægju reglur um fasteignaskattinn og álagningu hans. Um fækkun undanþágna við álagningu fasteignaskatts liggja ekki fyrir endanlegar reglur. Hins vegar liggur fyrir að þegar til fullra framkvæmda er komið felur ákvörðunin í sér um 600 millj. kr. árlegan tekjuauka fyrir sveitarfélögin. Um verður að ræða nýjan álagningarflokk, C-flokk, eins og fram kom í máli mínu fyrr í dag.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson gerði að umtalsefni ójafna stöðu nemenda í framhaldsskólum á landsbyggðinni með tilliti til húsaleigubóta. Lýsing þingmannsins á stöðunni á sér stoð í raunveruleikanum og er til umfjöllunar í sérstakri samráðsnefnd um húsaleigubætur. Ég hef sagt það áður hér, hæstv. forseti, og get ítrekað það að ég útiloka ekki að gerðar verði breytingar á viðeigandi reglum til að koma til móts við þá nemendur sem búa fjærst skóla í sveitarfélagi sínu komist nefndin að slíkri niðurstöðu.

Nálgun þingmannsins Sigurjóns Þórðarsonar, talsmanns Frjálslynda flokksins, að málinu í heild sinni var athyglisverð. Í andsvörum hans í dag kom ítrekað fram að óásættanlegt væri að auka útgjöld ríkisins. Það er engin leið að skilja afstöðu Frjálslynda flokksins til málsins öðruvísi en svo að hann sé þá á móti þeirri leiðréttingu í tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem hér hefur ítrekað komið til tals. Þetta er athyglisverð afstaða, raunar óskiljanleg, hæstv. forseti, en ágætt að hún liggi fyrir.

Hv. þm. Atli Gíslason gerði fasteignaverðshækkanir að umtalsefni og spurði hvað sá er hér stendur ætlaði að gera í því máli, hvort ég vildi standa að aftengingu tímasprengju eins og hv. þingmaður orðaði það. Hækkandi fasteignaverð á sér ekki eingöngu þá hlið að skattheimta á fasteignaeigendum aukist, hún á sér auðvitað einnig þær hliðar að eignir fólksins í landinu aukast, verðmæti húsnæðis vex svo um munar. Hún á sér einnig þá hlið að tekjur sveitarfélaganna aukast af skattheimtunni, gjaldstofninn breikkar vegna aukinna verðmæta eigna fólksins í landinu. Hér er um skattlagningu að ræða, hæstv. forseti, sem lýtur þeim lögmálum sem henni eru sniðin, og að grípa inn í eðli hennar og uppbyggingu nú er mér ekki að skapi.

Hv. þingmenn Guðjón Hjörleifsson og Einar K. Guðfinnsson spurðu hvort fyrir lægi með hvaða hætti tekjur af fasteignaskatti skiptust milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Ég hef ekki við höndina nýjustu upplýsingar um skiptingu þessara tekna. Hins vegar kemur fram í skýrslu nefndar um undanþágu frá fasteignaskatti frá í desember 2001 að um 51% teknanna var þá innheimt í Reykjavík, um 10% í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og þá um 40% í sveitarfélögum á landsbyggðinni. Þetta eru vissulega þriggja ára gamlar tölur en ég hygg að þær hafi ekki breyst að ráði á þeim tíma sem liðinn er.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson spurði enn fremur um áhrif þess að lögum um skráningu og mat fasteigna yrði breytt þannig að álagningin fari fram um næstu mánaðamót en ekki áramót eftir að tilteknu byggingarstigi væri náð. Þetta hefur það í för með sér að álagningunni er sem sé flýtt sem vitanlega verður til tekjuauka fyrir sveitarfélögin, nálægt 200 millj. kr. á ári.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson hélt því fram við umræðuna að ríkisstjórnin beitti valdníðslu við sameiningarvinnuna. Fullyrðingin er alröng. Þvert á móti liggja mjög lýðræðisleg vinnubrögð að baki þeim tillögum um sameiningu sveitarfélaga sem hér er um rætt. Tillögurnar byggja á samkomulagi í sameiningarnefnd, einróma samkomulagi fulltrúa ríkis og sveitarfélaga eftir víðtækt samráð og samvinnu við fulltrúa sveitarstjórna hvaðanæva að af landinu. Aðferðin er allt önnur en tíðkuð hefur verið víða í nágrannalöndum þar sem sameining sveitarfélaga hefur víðast verið framkvæmd með lögboði og því mun lýðræðislegri hér.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson gerði þetta að umtalsefni. Hann talar um að það verkefni sem hér er rætt um sé í stórkostlegri hættu og gerir að tillögu sinni að með lögum verði ákveðið að lágmarksfjöldi íbúa í sveitarfélagi verði aukinn úr 50 mönnum í t.d. 1.000. Þarna er um gamalkunna tillögu hv. þingmanns að ræða, hann vill með öðrum orðum ekki viðhafa þá lýðræðislegu aðferð sem beitt hefur verið við undirbúning þeirra sameiningarkosninga sem hér er um rætt að fari fram á komandi hausti. Ég er ósammála aðferðafræði hv. þingmanns. Ég tel, eins og hann, að sveitarfélögin þurfi að stækka og þeim þar með að fækka. Ég tel hins vegar afar mikilvægt að það gerist með frjálsri aðferð eins og hér er lagt upp með. Það kann vel að vera að svo verði komið að einhverjum árum liðnum að rétt verði að hækka hámarkstöluna með lögum. Það er hins vegar ekki lýðræðisleg aðferð og því tel ég hana ekki koma til greina að svo komnu máli, ekki nema um einhvers konar neyðarbrauð verði að ræða.

Hv. þm. Kristján L. Möller bað um nánari útlistun á því og sundurgreiningu á þeim framlögum sem ég gerði að umtalsefni í fyrri ræðu minni. Ágætri töflu um það mál hefur verið dreift í þingsalnum og ég tel að hún skýri málið ágætlega og ég sé að hv. þingmaður kinkar kolli. En þarna er annars vegar um að ræða varanleg áhrif frá og með árinu 2009 upp á ríflega 1.500 milljónir og hins vegar samantekin áhrif áranna 2005–2008 upp á ríflega 9,5 milljarða.

Hæstv. forseti. Ég tel að ég hafi í máli mínu drepið á flest þau atriði sem til mín var beint í þessari ágætu umræðu í dag. Ég vil nota tækifærið og greina þingheimi frá því að á vegum félagsmálaráðuneytisins hefur IMG Gallup spurt um það undanfarna þrjá mánuði hvort fólk sé hlynnt eða andvígt þeim áformum sem uppi eru í sveitarfélagi viðkomandi varðandi sameiningu sveitarfélaganna. Um er að ræða þriggja mánaða uppsafnaða niðurstöðu sem byggir á svörum ríflega 1.700 manna alls staðar að af landinu annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstaðan er mjög athyglisverð. Í ljós kemur að ríflega 66% eru mjög eða frekar hlynnt þeim hugmyndum sem uppi eru í viðkomandi sveitarfélögum, en einungis rúm 22% á móti. Fylgnin er alls staðar marktæk. Einungis á Vestfjörðum er munurinn óhagstæður getum við sagt, þar sem 47% eru hlynnt, 43% andvíg og 9% hvorki né. Það er því eina svæðið þar sem ekki er um meiri hluta fólks sem er sammála þeim hugmyndum sem uppi eru, að öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjunum undanskildum, þ.e. öðrum sveitarfélögum en Reykjanesbæ. Það hefur ítrekað komið fram í máli hv. þm. Jóns Gunnarssonar í dag, sveitarstjórnarmanns á Suðurnesjum, að þar eru mjög skiptar skoðanir, það er rétt hjá hv. þingmanni. Mikill meirihlutavilji er til þess í Reykjanesbæ að gengið verði fram með þeim hætti sem upphaflegar tillögur sameiningarnefndar gerðu ráð fyrir en minni ánægja, svo vægt sé til orða tekið, með það í öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum. Nú eiga endanlegar tillögur sameiningarnefndar eftir að koma fram og við sjáum þá hver viðbrögð við þeim verða.

Mér þótti rétt að greina frá þessu hér því að ég tel að þetta skipti afar miklu máli. Fram hefur komið í umræðum á Alþingi í dag, og ég tel að það sé rétt metið hjá mér, að það er mikill meirihlutavilji þingmanna að sveitarfélögin haldi áfram að eflast og stækka og með því fækki þeim og greinilega sama skoðun sem fram kemur hjá landsmönnum almennt í gegnum kannanirnar.

Hæstv. forseti. Það verkefni sem lagt var upp með á árinu 2003, um eflingu sveitarfélaganna, stækkun þeirra og fækkun og verkefnatilflutning stendur á ákveðnum tímamótum. Gangan hefur verið nokkuð löng og á köflum ströng. Ég tel hins vegar að ekki hafi verið við öðru að búast í jafnviðamiklu verkefni og hér um ræðir. Nú liggur fyrir ásættanleg niðurstaða í tekjustofnanefnd að mínu mati og flestra þeirra sem í nefndinni sátu. Einnig liggur fyrir niðurstaða í sameiningarnefnd sem gerir ráð fyrir verulegri fækkun og stækkun sveitarfélaga, úr ríflega 100 í 46. Það er einlæg von mín að nú geti menn horft til framtíðar og hafist handa við eflingu sveitarfélaganna, stækkun þeirra og fækkun svo þau megi taka að sér meiri, stærri og viðameiri verkefni í framtíðinni. Til þess er leikurinn gerður.