Útboðsreglur ríkisins

Mánudaginn 21. mars 2005, kl. 16:00:14 (6113)


131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

Útboðsreglur ríkisins.

[16:00]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Okkur sem tökum þátt í þessari umræðu er nokkur vandi á höndum. Þetta mál er rætt a.m.k. í annað sinn á hinu háa Alþingi og gengur almennt út á það að enginn vill bera á því ábyrgð. Í síðustu viku var rætt við hæstv. viðskiptaráðherra sem hafnaði því að bera ábyrgð á þessu tiltekna máli og nú held ég að hæstv. fjármálaráðherra hafi slegið flest met sem hægt er að slá í einni slíkri umræðu. Þegar leið á umræðuna hjá hinum sagði hann að Evrópusinnar bæru væntanlega einhverja ábyrgð á þessu því að þeir vildu sökkva þjóðinni í reglugerðafarganið í Evrópu. Þegar lengra var haldið í ræðunni voru það Ríkiskaup og síðan Landhelgisgæslan og síðan skyldi bara kalla þessa aðila fyrir sig. Þetta var nokkurn veginn ræða hæstv. ráðherra og minnir um margt á söguna um litlu, gulu hænuna sem á endanum vildi þó taka einhverja ábyrgð sem verður þó ekki sagt um hæstv. fjármálaráðherra.

Okkur er nokkur vandi á höndum og hér hefur verið dregið fram með mjög skýrum hætti það ástand sem virðist vera á ríkisstjórnarheimilinu, að enginn vilji bera á þessu ábyrgð. Kjarni málsins er hins vegar þessi: Hér er um að ræða sömu skip og rætt var um árið 2001. Hér er um að ræða sömu vandamál og þá voru uppi og hér er um að ræða svipaðan mun og þá var. Það hefur verið full ástæða til að leysa úr þessu. Ef veruleikinn er sá sem kom fram hjá hv. málshefjanda, að við erum að tala um 13 millj. kr. mismun í viðgerðarkostnaði, vantar svar við vissri spurningu, og þeirri spurningu svarar enginn nema hæstv. fjármálaráðherra: Af hverju voru ekki teknar upp viðræður við Slippstöðina á Akureyri í ljósi þeirra staðreynda sem lágu fyrir? Það er það sem við erum að kalla eftir í utandagskrárumræðu númer tvö (Forseti hringir.) um þetta sama tiltekna mál, virðulegi forseti.