Útboðsreglur ríkisins

Mánudaginn 21. mars 2005, kl. 16:04:44 (6115)


131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

Útboðsreglur ríkisins.

[16:04]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Nú erum við að ræða sama málið aftur og var rætt í síðustu viku í utandagskrárumræðu. Það stafar af því að enginn vill taka ábyrgð. Það er svo sérkennilegt að ekki einu sinni forseti þingsins, það kom fram fyrr í umræðunni, vill taka ábyrgð á þessari umræðu. Hann kenndi þingflokksformanni Frjálslynda flokksins, hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni, um að þetta mál væri hér á dagskrá.

Það er sérstaklega aumt að verða vitni að því að hv. þm. Birkir Jón Jónsson komi hér upp og kenni embættismönnum um hvernig komið er og líti ekki í eigin barm. Hver ber ábyrgð á skipasmíðum í landinu? Er það ekki hæstv. iðnaðarráðherra? Ég hefði haldið það. Hér koma samt stjórnarliðar og leyfa sér að tala niður til embættismanna sinna, þeir hafi lokað sig inni með Pólverjum og eitthvað í þá áttina. Auðvitað verða menn að horfast í augu við þá ábyrgð sem þeir bera á eigin verkum.

Ég verð að taka undir það sem hefur komið fram í máli allra hér, það er fáheyrt að þetta mál sé komið úr landi vegna 13 millj. kr. Það eru allar líkur til þess að miklum mun hagkvæmara hefði orðið að vinna verkið á Íslandi. Það er óskiljanlegt að við skulum standa í þessum sporum. Í rauninni væri miklu karlmannlegra fyrir stjórnarliða að axla ábyrgð og koma hér fram með einhverjar tillögur til framtíðar í staðinn fyrir að kenna embættismönnum um út og suður.

Að lokum ætla ég að taka undir með hæstv. fjármálaráðherra, það er e.t.v. rétt að kalla þá sem eiga aðild að þessu máli til allsherjarnefndar þingsins og fara yfir það. Það er greinilegt að hæstv. ráðherrar þessarar ríkisstjórnar eru algjörlega ófærir um að sinna verkum sínum.