Útboðsreglur ríkisins

Mánudaginn 21. mars 2005, kl. 16:13:41 (6119)


131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

Útboðsreglur ríkisins.

[16:13]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er svolítið skemmtileg umræða að mörgu leyti, sérstaklega fyrir áhugamenn um pólitíska landafræði, að fylgjast með skeytasendingum á milli stjórnarflokkanna og innbyrðis í flokkunum.

Hæstv. fjármálaráðherra vísaði réttilega í EES-reglurnar því að EES-samningurinn setur vissulega á okkur ákveðnar hömlur, hömlur sem við mörg hver vöruðum við á sínum tíma þegar við undirgengumst EES-kvaðirnar. Það er nú bara staðreynd að sjónarmið hinnar hagsýnu húsmóður eiga ekki alltaf upp á pallborðið í því samhengi. Þetta eru staðreyndir sem við verðum að horfast í augu við.

Hitt er svo annað mál, og það er ámælisvert, ef við höfum ekki hannað þessi útboð með íslenska hagsmuni í huga. Mér heyrist það vera hið rétta í málinu. Það kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda og ég heyrði ekki betur en að hæstv. ráðherra tæki undir það, og hann spyr: Hvers vegna kallar viðeigandi nefnd ekki viðeigandi aðila til fundar við sig?

Þá spyr ég: Hverjir eru þeir? Hverjir eru forsvarsmenn Landhelgisgæslunnar sem ráðherrann nefndi réttilega? Ég man ekki betur en að sá maður heiti Björn Bjarnason og sé hæstv. dómsmálaráðherra landsins. Þegar allt kemur til alls þyrftum við kannski að fá þriðju umræðuna og ræða málið við hæstv. dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason.

Að lokum vil ég minna á þingmál sem við fluttum í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði um aðgerðir til endurreisnar íslenskum skipaiðnaði þar sem við tíundum ýmis atriði sem við teljum mikilvægt að tekið verði á.