Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 21. mars 2005, kl. 18:27:37 (6139)


131. löggjafarþing — 96. fundur,  21. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:27]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við sem störfum í stjórnmálum og pólitík sitjum uppi með að þurfa að forgangsraða. Hugmyndir okkar um pólitík skipta okkur í stjórnmálaflokka. Það fer eftir því hvernig við sjáum samfélaginu best borgið og hvaða atriði og áherslur við teljum eiga að ráða í samstarfi ríkis og sveitarfélaga.

Hv. þm. Guðjón Hjörleifsson hefur birst í umræðunni sem oddviti og forustumaður Sjálfstæðisflokksins í málinu. Hann sagði í stuttri ræðu sinni að sú ákvörðun borgarstjóra og borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík að stefna að sjö klukkustunda gjaldfrjálsum leikskóla, staðfesti aðeins að Reykjavíkurborg þurfi ekki á tekjuaukningu að halda. Ákvörðun þeirra um að stefna að gjaldfrjálsum leikskóla var því ákvörðun um að ráðstafa fjármagni í óþarfa. Þetta verður ekki skilið á annan hátt og um leið er hv. þingmaður, sem oddviti Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu, að segja að sjálfstæðismenn séu andvígir gjaldfrjálsum leikskóla.

Ég lít svo á að það að stefna að gjaldfrjálsum leikskóla sé samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga og geti aldrei orðið á annan hátt. Mér þykir mjög miður ef Sjálfstæðisflokkurinn, annar tveggja flokka í ríkisstjórn, er ekki tilbúinn að koma í samstarf við sveitarfélögin um að stefna að því markmiði hringinn í kringum landið að tryggja gjaldfrjálsan leikskóla. (Forseti hringir.) Ég verð að segja, virðulegi forseti, að um leið og ég þakka hv. þingmanni fyrir skýran málflutning vil ég lýsa (Forseti hringir.) því yfir að mér þykir hann mjög miður.