Mannréttindasáttmáli Evrópu

Mánudaginn 21. mars 2005, kl. 19:30:23 (6163)


131. löggjafarþing — 97. fundur,  21. mars 2005.

Mannréttindasáttmáli Evrópu.

648. mál
[19:30]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég skal ekki hafa langt mál enda hefur fundur staðið lengur en ég hélt að til stæði í kvöld. En vegna þess að hæstv. dómsmálaráðherra hreyfði aðeins almennum atriðum sem lúta að stöðu Mannréttindadómstólsins og hlutverki finnst mér ástæða til að mæla í móti hugmyndum, sem vel að merkja hæstv. dómsmálaráðherra var ekki endilega að gera að sínum en sá ástæðu til að geta. Vissulega hefur maður fylgst með umræðunni um að menn mundu jafnvel stíga skref til baka frá því hlutverki sem Mannréttindadómstóllinn hefur haft. Maður mundi a.m.k. hvetja til þess að slíkt yrði skoðað af mikilli yfirvegun áður en lagst yrði á þá sveif, þótt gagnmerkir spekingar sem skrifi um það í Berlingske tidende og danski dómsmálaráðherrann hafi e.t.v. einhver slík sjónarmið uppi.

Má ég minna á að Mannréttindadómstóllinn hefur nú aldeilis komið við sögu í réttarfarsmálum hér á landi og ýtt við og knúið fram umbætur. Ég held að flestir séu sammála um þær umbætur í réttarkerfi okkar. Þetta hefur ekki síst átt við málsmeðferðarreglur en það hefur kannski ekki síður verið þar sem Íslendingar hafa oft á tíðum þurft að taka sig á og fengið verðmæta leiðsögn frá Mannréttindadómstólnum. Ég held að það sé útbreidd skoðun, ekki síst hér á landi, að borgararnir eigi ákaflega dýrmætan rétt til að fá óháð álit á fyrirkomulagi hlutanna á Íslandi og á því hvort uppbygging réttarkerfisins, málsmeðferðarreglur, undirbúningur mála, rannsókn og úrlausn séu í öllum tilvikum þannig að fullnægjandi og ásættanlegt sé. Mál sem jafnvel einstaklingar hafa lagt fyrir Mannréttindadómstólinn, oft út af viðfangsefnum sem ekki gátu talist stórvægileg í sjálfu sér, hvort sem það eru málefni sprottin af ágreiningi reiðhjólamanna eða hvað það nú er. Slík mál hafa dregið heilmikinn dilk á eftir sér, ýtt undir það og orðið til þess að Íslendingar tækju á hlutum sem við höfðum ekki gert. Við höfðum í raun ekki fylgt þróuninni og sátum uppi með gamalt fyrirkomulag sem ekki samrýmdist nútímalegum viðhorfum til aðskilnaðar valdþátta í samfélaginu, meðferðar mála o.s.frv.

Ég tel góðra gjalda vert að taka upp 14. viðauka sem samkvæmt upplýsingum í greinargerð og framsöguræðu ráðherra er fyrst og fremst til að auka skilvirkni dómsins og endurskipuleggja starfið þar þannig að hann ráði betur við þann mikla málafjölda sem til hans er vísað. Þær mundu kannski einfalda úrlausn mála í vissum tilvikum, skýrar reglur sem gilda um hvenær mál eru tæk til dóms o.s.frv. og auðvelda jafnvel sáttaleiðir í málum. En þetta bendir ekki til þess og sá mikli fjöldi mála sem þar er til meðferðar bendir ekki til að undan dómstólnum fjari í þeim skilningi að hann hafi ekki næg verkefni og ekki sé tiltrú á honum og að borgarar og samtök í Evrópu treysti ekki á hann og setji ekki mál þangað til skoðunar. Þvert á móti virðist hið gagnstæða leiða til þeirrar breytingar sem taka á upp.

Það er enginn vafi á því að Mannréttindadómstóllinn er eitt það allra merkasta og jákvæðasta sem gerðist á síðustu öld í uppbyggingu mála í Evrópu. Þar eru nánast öll Evrópuríki þátttakendur. Mannréttindadómstóllinn og Evrópuráðið eru þar lykilstofnanirnar og njóta almennt mikillar viðurkenningar og virðingar. Ég held að Evrópubúar almennt, burtséð frá því síðan hvaða leið menn hafa valið sér í ýmsu evrópsku samstarfi að öðru leyti, standi saman um þessar stóru samevrópsku stofnanir.

Við höfum átt þar góðan hlut að málum, Íslendingar. Við höfum átt því láni að fagna að merkir fulltrúar okkar hafa verið þarna við störf, skilað góðu starfi og eru virtir fyrir sitt framlag. Við þurfum því að huga vel að málum þegar þessi ágæta stofnun á í hlut. Þetta vildi ég láta koma fram að gefnu tilefni vegna hugleiðinga hæstv. dómsmálaráðherra í framsöguræðu hans.