Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 22. mars 2005, kl. 15:56:15 (6197)


131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Tekjustofnar sveitarfélaga.

194. mál
[15:56]

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Þetta mál gefur mér tilefni til að fjalla um það sem ég lít á sem brýna nauðsyn, þ.e. að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga í grunninn.

Ég hef vakið athygli á því og vil gera það aftur að hér hefur geisað eignaverðbólga frá hausti að því er varðar íbúðaverð sem rekja má til auðs og stórgróða bankanna sem þeir hafa verið í erfiðleikum með að fjárfesta. Það hefur leitt til þess að fasteignaverð, álagningarstofn til fasteignaskatta hefur hækkað að meðaltali á landinu um 10% umfram neysluvísitölu á síðasta ári. Þetta er hins vegar afar mismunandi eftir sveitarfélögum. Þannig hefur fasteignamatsverð lækkað á Vestfjörðum um 1,7% og gjalda sveitarfélög á Vestfjörðum þess. Hins vegar hefur fasteignamatsverð hækkað á Austfjörðum um 30%. Í Reykjavík um 14%. Álagningargrundvöllurinn mismunar því sveitarfélögum. Um almenna hækkun fasteignagjalda 2005 vil ég segja að ég held að allir íbúðareigendur á landinu eða flestir hafi fundið það í pyngjunni — þeir eru núna að fá gíróseðla sex mánuði þessa árs eða sjö — vegna þess að hækkunin er 10% umfram neysluvísitöluna. Þó er verra að í pípunum er 15–35% meðalhækkun á árinu 2006 umfram raunvirði. Þetta hefur bitnað á þessu ári og mun bitna á næsta ári verst og þyngst á eldri borgunum á lífeyrislaunum, á einstæðum foreldrum og á láglaunafólki almennt. Hæstv. félagsmálaráðherra veit af þessu vandamáli en lýsti því yfir hér í ræðustóli í síðustu viku að hann hygðist ekki bregðast við, hann hygðist ekkert gera. Hann ætlaði ekki að breyta eðli álagningarstofns fasteignagjalda. Það er að mínu mati óeðlilegt vegna þess að fasteignaskattarnir eru þjónustugjöld og þjónusta við fasteign á Suðureyri er svipuð og í Reykjavík við fasteign af sömu stærð og annað slíkt.

Það skekkir líka þessa mynd enn frekar og kallar á uppstokkun á tekjustofnum sveitarfélaga að lögaðilar greiða enga skatta sem ég vil kalla til sveitarfélagsins ef frá eru talin þessi þjónustugjöld, þ.e. fasteignagjöldin. Það er búið að afnema aðstöðugjaldið sem þau greiddu til sveitarfélaga. Þau greiða ekki útsvör. Síðan hefur það gerst líka að fjölgun einkahlutafélaga hefur leitt af sér lægri tekjur til sveitarfélaga. Hér er um að ræða mismunun bæði gagnvart einstaklingum og gagnvart sveitarfélögum. Sveitarfélögunum er mismunað, einstaklingum er mismunað og félagsforminu er mismunað.

Mér er tjáð af sveitarstjórnarmönnum að þeim þyki ekkert sérlega fýsilegt, eins og tekjur af lögaðilum og atvinnurekstri eru í dag, að fá lögaðila til lögheimilis og reksturs innan síns sveitarfélags. Það þykir bara ekki fýsilegt, sér í lagi í minni sveitarfélögum þar sem þarf að kosta töluverðu til til að skapa rekstraraðstöðu fyrir viðkomandi lögaðila eða atvinnurekanda. Þeir borga sem sagt ekkert aðstöðugjald, ekkert útsvar og ekkert fyrir að starfa í þessu sveitarfélagi nema gjöld af sínum fasteignum. Þær fasteignir kunna að vera fátæklegar þó umfang rekstursins og afnot af sveitarfélaginu séu veruleg.

Þessi atriði kalla á endurskoðun, á uppstokkun á tekjustofnum sveitarfélaga og þau kalla á að það verði ekki látið reka á reiðanum eins og hæstv. félagsmálaráðherra boðar, algjörlega hugmyndasnauður í þeim efnum.

Það verður geymt en ekki gleymt í janúar á næsta ári þegar nýjar álögur dynja yfir, langt umfram raunvirði og neysluvísitölu, hver viðbrögð hæstv. félagsmálaráðherra voru í svörum hér á þingi í síðustu viku, þegar þessar hækkanir munu skella á láglaunafólki og eldri borgurum með fullum þunga.

Það er algjört grundvallaratriði og ég átta mig ekki á því að flokkar eins og Framsóknarflokkurinn, sem kennir sig við félagshyggju og hefur gert í mörg ár, skuli ekki taka undir það að leggja skatta á í þessu þjóðfélagi eftir tekjum og efnahag. Fasteignaskattar eru álagðir óháð tekjum, þar borgar fátæka ekkjan jafnmikið og Björgúlfarnir af sínum eignum, þ.e. stökum eignum.