Fundur forseta með formönnum þingflokka -- skuldastaða heimilanna

Miðvikudaginn 30. mars 2005, kl. 13:46:24 (6216)


131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Athugasemd.

[13:46]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Mér finnst alveg ástæða til þess að hæstv. forseti geri grein fyrir þessum ágreiningsefnum milli sín og hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar og geri grein fyrir því hvers vegna hann hefur ekki svarað því sem hv. þingmaður spyr um. Mér finnst lágmark að hæstv. forseti sýni þingmönnum þokkalega virðingu í þingsölum. Því miður hefur brunnið við með hæstv. forseta að gera það ekki og kannski að vonum þegar hæstv. forsætisráðherra ómakar sig í ræðustólinn til að mæla vitleysuna upp í hæstv. forseta. Það var hæstv. utanríkisráðherra sem gerði það hér áðan — ég bið afsökunar á mismæli mínu.

Mér finnst að hæstv. forseti, af því að það er nú á allra vitorði að hann á ekki langt eftir í þessu embætti, ætti að nota þá daga sem eftir eru til að bæta ráð sitt og fara með skárri áru úr því en hann hefur um þessar mundir.