Skráning nafna í þjóðskrá

Miðvikudaginn 30. mars 2005, kl. 13:52:56 (6221)


131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Skráning nafna í þjóðskrá.

204. mál
[13:52]

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn til ráðherra Hagstofu Íslands um skráningu nafna í þjóðskrá. Ástæðan fyrir því að þessi fyrirspurn er lögð fram er sú að í dag er staðan þannig að þúsundir Íslendinga fá ekki fullt nafn sitt skráð í þjóðskrána hjá Hagstofu Íslands. Þetta hefur verið mörgum til mikils ama.

Í svari hagstofuráðherra við fyrirspurn hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar frá 127. löggjafarþingi um skráningu í þjóðskrá kemur fram að skráningar nafna í þjóðskrá byggjast á starfsreglum Hagstofu Íslands frá því að þjóðskráin varð til árið 1953. Svæðið sem nú gefst til skráningar nafna er einungis 31 stafabil.

Virðulegi forseti. Ég gerði örlitla stikkprufu á nokkrum klassískum íslenskum nöfnum í þjóðskrá og það var býsna fróðleg yfirferð. Þar sá ég t.d. glögglega að um 11,4% allra kvenna sem bera hið rammíslenska nafn Sigríður sem fyrsta nafn fá ekki fullt nafn sitt skráð í þjóðskrá. Þetta er töluvert há tala þar sem rúmlega 4 þús. konur eða stúlkubörn bera nafnið Sigríður á Íslandi.

Hið sama má segja um nafnið Þorgerður, um 10,1% þeirra kvenna og stúlkubarna sem bera það sem fyrsta nafn fá nafnið sitt ekki fullskráð og heil 9% þeirra sem bera karlmannsnafnið Þorvaldur sem fyrsta nafn fá nafnið sitt ekki fullskráð.

Virðulegi forseti. Mér þykja þetta þannig tölur að ég tel mikilvægt að málið verði grandskoðað og því hef ég lagt fram fyrirspurn til hæstv. hagstofuráðherra sem hljóðar svo:

1. Stendur til að breyta skráningu nafna í þjóðskrá þannig að allir geti skráð fullt nafn sitt án þeirra takmarkana sem eru nú á heildarlengd nafna?

2. Hefur kostnaður við slíka breytingu á skráningu verið kannaður og ef svo er, hversu mikill yrði hann?

3. Hefur verið kannað hversu langan tíma tæki að gera slíka breytingu?

4. Hversu margir einstaklingar hafa ekki fengið fullt nafn skráð í þjóðskrá?

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan hefur álíka fyrirspurn frá hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni verið svarað. Hins vegar eru fjögur ár síðan og ég tel mikilvægt að halda þessu máli vakandi vegna þeirrar gríðarlegu tæknibyltingar sem hefur átt sér stað. Fyrirtæki uppfæra tölvukerfi sín reglulega þannig að ég sé ekkert því að vanbúnaði að við gætum samþykkt að gera slíkar breytingar.