Atvinnubrestur á Stöðvarfirði

Miðvikudaginn 30. mars 2005, kl. 14:08:48 (6227)


131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Atvinnubrestur á Stöðvarfirði.

496. mál
[14:08]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ljóst er að áform Samherja um að hætta fiskvinnslu á Stöðvarfirði eru áfall fyrir heimamenn, enda 35 stöðugildi í húfi. Greinilegt er hins vegar að heimamenn ætla að snúa vörn í sókn og er m.a. hafin vinna við verkefni sem kallað er Þróunarverkefni á Stöðvarfirði en það er samvinnuverkefni Austurbyggðar, Þróunarstofu Austurlands og Samherja hf. Verkefnið felst í því að fara yfir samsetningu byggðar og meta þau atvinnutækifæri og sóknarfæri sem kunna að leynast á Stöðvarfirði. Kynntu forsvarsmenn Austurbyggðar þessa vinnu á fundi sem haldinn var með þingmönnum Norðausturkjördæmis í síðustu viku en á þeim fundi var farið yfir stöðu atvinnumála á Stöðvarfirði. Ekki lágu fyrir neinar lausnir eftir fundinn, enda var hann fyrst og fremst hugsaður til upplýsinga og undirbúningsvinnu við að fjölga þar atvinnutækifærum. Hefur starfshópurinn þegar hafið greiningarvinnu og áformað er að taka viðtöl við alla starfsmenn Samherja á Stöðvarfirði, alla þá sem eru í atvinnurekstri á Stöðvarfirði og alla þá sem hafa komið fram með viðskiptahugmyndir sem nýst gætu staðnum. Er áformað að finna með þessari greiningarvinnu hvar sóknarfæri Stöðfirðinga liggja. Hugmyndir að margvíslegum atvinnurekstri eru þegar komnar fram og mun starfshópurinn vinna að því að veita góðum hugmyndum brautargengi.

Iðnaðarráðuneytið mun fylgjast grannt með þeirri vinnu sem unnin er í samstarfshópnum og hef ég boðið fram beina þátttöku ráðuneytisins í starfinu. Áætlað er að hópurinn skili tillögum strax á næstu mánuðum.

Það er sérlega ánægjulegt að Þróunarstofa Austurlands kemur öflug að verkefninu. Stoðkerfi núverandi byggðaáætlunar byggist m.a. á öflugum frumkvöðlastuðningi á landsbyggðinni. Við framkvæmd byggðaáætlunar er mikil áhersla lögð á að ýta undir nýsköpun sem hefur skilað sér í mörgum spennandi verkefnum og skapað ný atvinnutækifæri í heimabyggð.

Þá ber að fagna því að Samherji hf. skuli ætla að axla samfélagslega ábyrgð á ástandinu. Viðræður hafa farið fram milli forsvarsmanna Samherja og heimamanna um mögulega þátttöku fyrirtækisins í atvinnuuppbyggingu á staðnum. Þar má nefna atriði eins og að halda áfram vinnslu í samstarfi við heimamenn, byggja upp aðra atvinnustarfsemi á Stöðvarfirði, greiða fyrir samgöngum í önnur byggðarlög, t.d. með almenningssamgöngum, tryggja endurmenntun starfsmanna til að auðvelda aðkomu þeirra að nýjum störfum o.s.frv. Ljóst er að mikill metnaður er til staðar á staðnum til að ná árangri í þeirri vinnu sem nú er hafin. Stöðvarfjörður er á atvinnusvæði þar sem framtíðarhorfur eru að mörgu leyti bjartar. Með tilkomu jarðganga á næstu mánuðum mun fjarlægðin frá Stöðvarfirði til Reyðarfjarðar verða svipuð og fjarlægðin frá Reyðarfirði til Egilsstaða og frá Reyðarfirði til Norðfjarðar. Með byggingu og rekstri Fjarðaáls munu tækifæri til atvinnu- og nýsköpunar aukast til muna og sú þróun mun gagnast Stöðfirðingum.

Þótt ekki líti vel út með atvinnumál á Stöðvarfirði sem stendur er sóknarhugur í heimamönnum og ég bind miklar vonir við að gott samstarf skapist milli Samherja og heimamanna um aðgerðir til að snúa ástandinu við og mun iðnaðarráðuneytið verða tilbúið til að koma að þeirri vinnu. Nú er leitað leiða til að finna fleiri tækifæri til atvinnuuppbyggingar og er ljóst að sú mikla samheldni og jákvæðni sem einkennir þá vinnu mun að öllum líkindum skila sóknarfærum og nýjum störfum.

Ég tel að sú vinna sé til mikillar fyrirmyndar og vonast til að hún skili nýjum störfum á Stöðvarfjörð.