Meðferðarúrræði í fangelsum

Miðvikudaginn 30. mars 2005, kl. 15:04:47 (6256)


131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Meðferðarúrræði í fangelsum.

612. mál
[15:04]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Eins og hv. fyrirspyrjanda er kunnugt fá allir fangar sem óska eftir vímuefnameðferð við upphaf afplánunar slíka meðferð sem felst í afeitrun undir umsjá læknis. Frekari meðferð og aðstoð fagaðila fer síðan eftir stöðu og vilja hvers og eins fanga og möguleikum til að koma við meðferð. Fangelsismálastofnun er t.d. með í undirbúningi að gera samning við vímuefnaráðgjafa sem kæmi reglulega í fangelsi til að vega og meta þörf fyrir áframhaldandi meðferð auk þess sem verið er að kanna hvað unnt er að gera á Litla-Hrauni til að aðstoða þá enn frekar sem eiga við vímuefnavanda að stríða. Rétt er að hafa í huga að haldnir eru reglulegir AA-fundir í fangelsunum auk þess sem nú þegar hafa tólf fangar á þessu ári verið sendir í vímuefnameðferð á meðferðarstofnunum.

Eins og hv. fyrirspyrjanda er einnig vel kunnugt er nú til meðferðar á Alþingi frumvarp til laga um fullnustu refsinga þar sem gert er ráð fyrir að útbúin sé sérstök meðferðar- og vistunaráætlun fyrir fanga við upphaf refsivistar. Raunar hef ég þegar svarað skriflegri fyrirspurn frá hv. þingmanni um það efni. Fangelsismálastofnun hefur þegar hafið undirbúning að gerð slíkra áætlana eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Í slíkri áætlun er m.a. fólgið að metin er staða og þörf fyrir meðferð hjá þeim sem á við vímuefnavanda að etja.

Fangelsismálastofnun er í náinni samvinnu við heilbrigðisyfirvöld við að leggja mat á þörfina fyrir þjónustu geðlækna og sálfræðinga í fangelsunum og kanna nýjar leiðir í þeim efnum eins og auknar hópmeðferðir. Rétt er að hafa í huga í þessu samhengi að samkvæmt gildandi lögum um fangelsi og fangavist sér heilbrigðisráðuneytið um og ber ábyrgð á heilbrigðisþjónustu við fanga í fangelsum að höfðu samráði við Fangelsismálastofnun. Umboðsmaður Alþingis sá nýlega ástæðu til að árétta að þessi ábyrgð liggur hjá heilbrigðisráðuneytinu í bréfi til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Það er ljóst af framansögðu að margt er reynt til að aðstoða þá sem eiga við vímuefnavanda að etja og þeir eiga kost á viðeigandi meðferð við upphaf afplánunar. Þetta atriði mun hins vegar styrkjast enn frekar verði frumvarp um fullnustu refsinga að lögum þar sem kveðið er á um meðferðar- og vistunaráætlun í upphafi afplánunar. Fangelsismálastofnun hefur unnið skýrslu um markmið í fangelsismálum og framtíðaruppbyggingu fangelsanna eins og greint er frá í áðurnefndu frumvarpi. Þar hefur að sjálfsögðu verið hugað að þessum atriðum og hvernig best er hægt að tryggja fullnægjandi þjónustu á þessu sviði til framtíðar litið.