Meðferðarúrræði í fangelsum

Miðvikudaginn 30. mars 2005, kl. 15:07:42 (6257)


131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Meðferðarúrræði í fangelsum.

612. mál
[15:07]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það var gott að fá staðfestingu hér á því í svari hæstv. ráðherra að föngum standi til boða meðferð við fíkniefnaneyslu eða áfengisneyslu strax við komu í fangelsi. Ég hélt satt að segja að lítil áhersla væri lögð á það núna heldur frekar á meðferð í lok afplánunar og gott er til þess að vita ef ég hef misskilið það hvernig þetta fer fram í fangelsum landsins eins og á Litla-Hrauni.

Fyrir um það bil viku, ég held síðasta miðvikudag, svaraði hæstv. ráðherra spurningu um hvernig tekist væri á við fíkniefnaneyslu fanga í fangelsum. Þá lagði hæstv. ráðherra verulega áherslu á að verið væri að auka leit að fíkniefnum og herða refsingar fyndust fíkniefni. En nú heyri ég að það kveður við annan tón hjá hæstv. ráðherra og hann leggur á það áherslu að fangar komist í meðferð strax við byrjun afplánunar og er það vel ef orðið hefur áherslubreyting.