Ráðning fréttastjóra Ríkisútvarpsins

Föstudaginn 01. apríl 2005, kl. 10:39:15 (6381)


131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Athugasemd.

[10:39]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það blasir við að Ríkisútvarpið, mikilvægasta menningarstofnun og mikilvægasti fjölmiðill landsins, er óstarfhæft vegna misnotkunar stjórnarflokkanna á valdi sínu. Það er ekki hægt að kalla það neitt annað en skemmdarverk á þessari mikilvægu stofnun sem stjórnarflokkarnir með sínum dæmalausu embættaveitingum hafa þarna ástundað og bætist það við það sem á undan er gengið. Það er auðvitað dapurlegt að margar af máttarstoðum samfélagsins eru stórskaddaðar og í uppnámi vegna sambærilegrar misnotkunar á embættaveitingavaldi. Nægir þar að nefna Hæstarétt til viðbótar við Ríkisútvarpið.

Ísland er að lenda á lista yfir þau lönd þar sem fjölmiðlar fá ekki að starfa frjálst. Það er vondur félagsskapur. Hafa menn gaman af því að vera spyrtir saman við þau lönd sem virða ekki sjálfstæði og hlutverk fjölmiðla? Það er lítið skárri félagsskapur en sá að vera með löndunum sem studdu hið ólögmæta árásarstríð gegn Írak.

Alþjóðasamband blaðamanna er komið með Ísland undir smásjána og hvað gerir hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni sem ber ábyrgð á þessu? Felur sig í útlöndum. Hæstv. menntamálaráðherra felur sig í útlöndum á meðan Ríkisútvarpið logar stafnanna á milli vegna framgöngu stjórnarflokkanna í málinu. Útvarpsstjóri er trausti rúinn og bersýnilega ekki lengur fær um að gegna starfi sínu. Má þá kannski segja að oft veltir lítil þúfa þungu hlassi ef sölumaðurinn sem ríkisstjórnarflokkarnir ákváðu að gera að fréttastjóra á útvarpinu kostar útvarpsstjóra, Markús Örn Antonsson, embættið.