Ferðamál

Föstudaginn 01. apríl 2005, kl. 14:30:09 (6438)


131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Ferðamál.

678. mál
[14:30]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hélt að þetta atriði væri nú ekki það sem stæði upp úr í þessari þingsályktunartillögu, þ.e. áfengisgjald á léttvín og bjór. Engu að síður er ástæða til þess að fara yfir spurningar hv. þingmanns.

Vegna þessarar gagnrýni og vegna athugasemda um hátt áfengisverð á Íslandi lét ég gera úttekt á því sérstaklega vegna þess að komið höfðu athugasemdir um hátt áfengisgjald. Vissulega er áfengisgjald hátt á Íslandi samanborið við ýmis önnur lönd. Engu að síður hefur áfengisgjald á léttvín og bjór ekki hækkað mjög lengi í takt við verðlag þannig að í raun hefur það hægt og bítandi með verðlagsþróun verið að lækka.

Í þessari úttekt sem ég lét gera kom fram að áfengisgjaldið skiptir engum sköpum um verðlagningu á áfengi á veitingastöðum. Álagning veitingahúsanna ræður þar för. Ég vil hins vegar ekki kveða upp neinn dóm um það að verðlagning á áfengi á íslenskum veitingastöðum sé óeðlilega há. Eins og veitingamenn hafa vakið athygli á er oft og tíðum verið að veita margs konar aðstöðu og þjónustu sem veitingamenn verða að fá endurgjald fyrir og verða þess vegna að verðleggja sína þjónustu í samræmi við það. Það kemur fram í formi verðs á þessum vínum.

Ég tel því að þetta sé fjarri því að vera vandamál af þeirri stærðargráðu að það þurfi að taka upp sem sérstakt mál í tengslum við þessa umræðu. (Forseti hringir.) Ég tel miklu mikilvægara að takast á við mörg önnur atriði.