Ferðamál

Föstudaginn 01. apríl 2005, kl. 14:56:47 (6447)


131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Ferðamál.

678. mál
[14:56]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef áhyggjur af stóriðjustefnunni af mörgum ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að ég vil ekki skemma landið. Í öðru lagi vegna þess að hún er efnahagslegt glapræði eins og við erum að upplifa núna með ákaflega neikvæðum ruðningsáhrifum þeirra miklu fjárfestinga í formi verðbólgu, þenslu, hás gengis og óviðunandi afkomu útflutnings- og samkeppnisgreina.

En ég hef í þriðja lagi áhyggjur af stóriðjustefnunni vegna þess að hún stórskaðar ímynd Íslands sem ferðamannalands og sem framleiðanda hágæðamatvöru. Þetta skaðar þá ímynd hreinleika og ósnortinnar náttúru sem er okkur ákaflega verðmæt í undirstöðuatvinnugreinum okkar, bæði matvæla, stóriðjunni og ferðaþjónustunni.

Ég sagði reyndar ekki að of margir ferðamenn væru að koma til Íslands. Ég sagði að áhyggjuefnið væri frekar það hversu ört ferðaþjónustan er að vaxa og hversu hratt ferðamönnunum fjölgar í þeim skilningi að við höfum aðstöðu og viðbúnað til að taka vel við þeim. Ég bið hv. þingmann að leggja mér ekki orð í munn eða snúa út úr máli mínu. Ég ætla ekki að fara að gagnálykta af orðum hv. þingmanns áðan á þann veg að hann telji að stóriðjustefnan sé góð af því að hún muni fæla frá ferðamenn, en það væri alveg jafnréttmætt og að hv. þingmaður las út úr ummælum mínum einhverjar miklar mótsetningar.

Ég er mjög hlynntur því að við eflum og byggjum upp ferðaþjónustuna. Ég tel hana ákaflega góða atvinnugrein, eins og skýrt kom fram í máli mínu, dreifa afrakstri sínum vel um þjóðarlíkamann. Hún á að skapa landinu öllu mikla möguleika. Sérstaklega í framtíðinni sé ég fyrir mér að uppbygging ferðaþjónustunnar verði í mjög miklum mæli úti um landið og í þeim héruðum sem hingað til hafa ekki verið miklir þátttakendur í ferðaþjónustunni ósköp einfaldlega vegna þess að það mælir allt með að við stuðlum að því að svo verði. Ég kem kannski inn á það í síðari ræðu minni — og bið ég nú virðulegan forseta að taka mig niður á mælendaskrá — hvað við þurfum að gera að mínu mati til að ná þeim markmiðum fram að dreifa álaginu af ferðaþjónustunni. Það mun ekki gerast sjálfkrafa, sérstaklega vegna þess að hún er skipulagslega og rekstrarlega þannig upp byggð (Forseti hringir.) í núinu að hún á sér öll (Forseti hringir.) tengipunkt á suðvesturhorni landsins.