Uppboðsmarkaðir sjávarafla

Föstudaginn 01. apríl 2005, kl. 16:16:51 (6460)


131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

677. mál
[16:16]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst þetta vera mjög lítið frumvarp miðað við hvað málið er stórt og miklir hagsmunir í húfi. Talsverð vinna hefur verið í kringum það að útbúa reglur og lög um fiskmarkaði. Má m.a. benda á þessa skýrslu hérna, skýrslu fiskmarkaðsnefndar, og væri fróðlegt að fá fram hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort þessi skýrsla hafi verið notuð við gerð frumvarpsins. Einnig væri fróðlegt að vita hvort ráðuneytið hefði farið yfir lög og reglur sem gilda um fiskmarkaði erlendis, hvort þau hefðu verið höfð til hliðsjónar bæði við þessa lagasetningu og þær reglur sem hljóta að verða settar um fiskmarkaði í framtíðinni.

Ég tel mjög mikilvægt að setja mjög góðar og fastar reglur um fiskmarkaði og jafnframt að tryggja að allir kaupendur fisks geti boðið í íslenskan afla. Stendur til að setja slíkar reglur í framhaldinu af þessum lögum? Þessi lög segja í rauninni mjög lítið, gefa bara ráðherra heimild til að setja reglur. Það er nauðsynlegt að setja reglur, bæði hvað varðar gæðamál og til að tryggja öllum jafnan aðgang að íslenskum afla.