Gjald í Hvalfjarðargöng

Mánudaginn 04. apríl 2005, kl. 15:08:42 (6474)


131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Fsp. 2.

[15:08]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegu forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma með þetta mál rétt eina ferðina enn inn í þingsali. Ég held að varla hafi nokkurt annað mál jafnoft verið tilefni til þess að hv. þingmenn hafi tekið til við að spyrja annaðhvort samgönguráðherra eða fjármálaráðherra. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði, stjórn hlutafélagsins Spalar hefur tekið ákvörðun um að lækka gjaldið, og þá mest og aðallega hjá þeim sem eru stórnotendur, með því að endursemja um þau lán sem á fyrirtækinu hvíldu.

Þessar aðgerðir komu í kjölfar þess að ég óskaði eftir því að Ríkisendurskoðun færi yfir málefni félagsins. Það var gert á grundvelli þeirrar heimildar sem er í gildi milli Spalar og samgönguráðuneytisins og Ríkisendurskoðun benti á að þarna væri augljóslega hægt að ná verulegum hagsbótum með því að endursemja um lánin. Sú er niðurstaðan, hún liggur fyrir og er mjög ánægjulegt að svo skyldi geta orðið.

Hvað varðar frekari aðgerðir hefur því verið svarað áður úr þessum ræðustóli að ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um breytingar á virðisaukaskattsreglum, enda er það ekki samgönguráðherrans að svara því. Hins vegar hefur það komið fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að reglur um álagningu virðisaukaskatts eru til meðferðar á vegum ríkisstjórnarinnar í samræmi við stjórnarsáttmálann. Það verður að bíða þess tíma að niðurstaða fáist úr því hvað það varðar.

Að öðru leyti vil ég vísa til þess sem margsinnis hefur komið fram að Hvalfjarðargöngin hafa skapað feiknarlegar hagsbætur fyrir íbúa þess svæðis sem nýta göngin.