Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Mánudaginn 04. apríl 2005, kl. 19:53:33 (6537)


131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[19:53]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér er svolítill vandi á höndum. Ég vil byrja á að þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir að vera hér við umræðuna. En nú er ég næstur á mælendaskrá og eftir að ég hef talað þá má ég ekki tala meira í þessu máli.

Ég hefði viljað eiga möguleika á því að eiga orðastað við hæstv. menntamálaráðherra og þá í framhaldi af orðum hæstv. sjávarútvegsráðherra sem hefur vísað ábyrgð á parti þessa máls til hæstv. menntamálaráðherra jafnvel þó að það frumvarp sem við erum að ræða hér heyri ekki undir þann hæstv. ráðherra.

Það sem ég þyrfti helst á að halda fyrir seinni ræðu mína í þessu máli, af því að nú er þetta 3. umr. eins og hæstv. forseti hefur bent á, er að geta átt orðastað við báða hæstv. ráðherrana á þessum fundi

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því að það mál sem við fjöllum um hér fellur ekki undir hæstv. menntamálaráðherra. Það er af þeim sökum fullkomlega óeðlilegt að setja fram slíkar kröfur. Ég vil beina því til hv. þingmanns að vera þinglegur í sinni ræðu.)

Virðulegi forseti. Ég vil víkja aðeins að hinum hlutanum sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson vísaði til virðulegs forseta um það hvernig eigi að taka ályktunum þingsins, þingsályktunum sem hér eru samþykktar. Ég vil eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson vísa þá til mikillar þingreynslu hæstv. forseta og ekki síður til þess að sú þingsályktunartillaga sem hv. þingmaður vísaði til kom hér til afgreiðslu og hæstv. forseti greiddi þeirri þingsályktunartillögu atkvæði sitt á þeim tíma. Ég spyr hvort það sé yfirleitt venja að flokka texta þingsályktunartillögu í aðalsetningar sem fara á eftir og aukasetningar sem enginn þarf að fara eftir. Ástæðan fyrir þessari spurningu er einfaldlega sú að hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði hér í umræðunni um þá þingsályktunartillögu sem verið er að vísa hér til um að Þróunarsjóður sjávarútvegsins, sem nú á að fara að leggja niður, ætti að taka þátt í að fjármagna varðveislu báta og skipa, að þetta væri bara aukasetning þar sem þróunarsjóðurinn væri nefndur og því bæri ekki að taka það þannig að það þyrfti í sjálfu sér að fara eftir því.