Jafnréttismál í landbúnaði

Þriðjudaginn 05. apríl 2005, kl. 13:44:56 (6553)


131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Jafnréttismál í landbúnaði.

[13:44]

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er mjög mikilvægt að gætt sé jafnréttissjónarmiða á öllum sviðum samfélagsins og er landbúnaður þar engin undantekning á. Jöfn áhrif kvenna og karla til ákvarðanatöku og stefnumótunar í samfélaginu er það sem við flestöll viljum sjá í verki. Á búnaðarþingi sem var haldið í síðasta mánuði var í fyrsta skipti samþykkt jafnréttisáætlun Bændasamtakanna og er það ekki síst vegna baráttu kvenna sem hafa stofnað með sér grasrótarsamtökin Lifandi landbúnaður. Eru markmið þeirra samtaka að stuðla að öflugri, litríkari og meira lifandi landbúnaði en verið hefur og að konur verði sýnilegra og virkara afl. Það er mikil þekking sem með þeim býr og þær hafa stuðlað að því að efla félagslegt hlutverk kvenna í landbúnaði.

Á árinu 2003 voru samtals 4.152 einstaklingar skráðir bændur. Þar af voru karlar 2.714 og konur 1.438, þ.e. karlar 65%, konur 35%. Konur ættu því miðað við þessar tölur að hafa betri stöðu hvað varðar hlutföll í nefndum í dag en raun ber vitni. Ef grannt er skoðað getum við trúlega séð, ef við lítum yfir nöfn þeirra karla sem eru í nefndum á vegum landbúnaðarins, sömu nöfnin koma upp aftur og aftur. Þar er ekki breiddin.

Það er aðeins ein kona í stjórn Bændasamtaka Íslands. Þær ættu í réttu hlutfalli að vera a.m.k. þrjár, ef ekki fjórar. Í skýrslu um eignarhald kvenna í atvinnurekstri og landbúnaði kemur fram að þátttaka í félagsstörfum í landbúnaði er 21%, í sveitarstjórnum 19%. (Forseti hringir.) Þegar konur eru spurðar að því hvað valdi segja þær oft og tíðum: Það er tímaleysi, það er áhugaleysi og þær fá ekki hvatningu.