Jafnréttismál í landbúnaði

Þriðjudaginn 05. apríl 2005, kl. 13:51:44 (6556)


131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Jafnréttismál í landbúnaði.

[13:51]

Katrín Ásgrímsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það má kannski segja að umræðan hér endurspegli ákveðin tímamót í jafnréttisumræðunni. Þau tímamót felast í því að jafnréttisumræðan er komin á skrið innan Bændasamtaka Íslands. Eins og hér hefur komið fram var nýverið samþykkt jafnréttisáætlun hjá Bændasamtökunum og þar er í fyrsta sinn lögð áhersla á þessi mál á þeim vettvangi.

Það er óhætt að segja að ímynd bændasamfélagsins hafi verið mjög karllæg. Karlmenn hafa almennt verið skráðir fyrir búum, þó að það sé að breytast. Þeir hafa einmitt almennt setið í stjórnum búnaðarfélaganna og búgreinasambanda. Það er því afar mikilvægt að frá Bændasamtökunum komi jafnréttisstefna og að fulltrúar bænda hafi þessa samþykkt á bak við sig því að frá þeim koma gjarnan tilnefningar í opinberar nefndir og ráð.

Þessi umræða er mikilvæg fyrir bændastéttina. Það er mikilvægt að sjónarmið kvenna skili sér inn í ákvarðanatöku og stefnumótun stéttarinnar í heild á beinan hátt. Það er mikilvægt að þeir sem fjalla um málefni sveita landsins endurspegli það fólk sem stendur þar fyrir rekstri. Sú er jú oftast raunin að í sveitum landsins standa hjón almennt hlið við og hlið á jafnréttislegum grundvelli að rekstri búanna. Ef til vill er það þar sem jafnréttið skiptir höfuðmáli.

Staða jafnréttismála hjá þeim stofnunum ríkisins sem snerta landbúnað endurspeglar að hluta stöðuna innan bændastéttarinnar. Nýsamþykkt jafnréttisáætlun Bændasamtakanna ætti að vera hvetjandi og auðvelda ríkisvaldinu að stuðla að frekara jafnrétti í nefndum og störfum sem falla undir landbúnaðarráðuneytið.