Úrvinnslugjald

Þriðjudaginn 05. apríl 2005, kl. 14:42:12 (6572)


131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Úrvinnslugjald.

686. mál
[14:42]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel raunar alveg ljóst að þeir erfiðleikar sem hafa komið fram við framkvæmdina á þessum ákvæðum laganna séu byrjunarörðugleikar. Við verðum auðvitað að átta okkur á því að þessi lög eru rúmlega tveggja ára gömul. Ég vona svo sannarlega, eins og ég nefndi áðan, að ekki komi til þess að koma þurfi inn með breytingar af þessu tagi hvað eftir annað, á sömu ákvæðum laganna.

Ég tel að við verðum að fá meiri reynslu á þessi lög áður en farið verður að gera einhverjar þær breytingar í þá veru sem þingmaðurinn nefndi. Mér finnst hugmyndin þó allrar athygli verð og engin ástæða til annars en að skoða hana. En ég tel að það þurfi að fá frekari reynslu af þessum lögum áður en farið verður að gera einhverjar grundvallarbreytingar og hleypa þá fleiri aðilum að þessu borði.