Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum

Þriðjudaginn 05. apríl 2005, kl. 17:12:39 (6618)


131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[17:12]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít líka svo á að við höfum verið að ræða grundvallaratriði í dag og að mjög erfitt sé að ræða þetta litla mál, styrkveitingu til holræsaframkvæmda í einkaframkvæmd og kosti þess og galla, nema að taka tilsvarandi dæmi og þróunina eins og hún hefur orðið á liðnum árum. Það vefst enn þá fyrir mér, og það verða lokaorð mín í umræðunni, að það séu rök og að það sé jafnræði að veita styrki af opinberu fé til stofnframkvæmda sveitarfélags þegar sveitarfélagið ætlar ekki í stofnframkvæmdirnar heldur ætlar einkaaðili úti í bæ eða úti á landi að fara í stofnframkvæmdirnar og vinna verkið og leigja sveitarfélaginu það. Þetta vefst enn þá fyrir mér. Ég lít enn þá svo á að menn séu að jafna saman ólíkum hlutum og ekki sé sjálfgefið og það sé ekki jafnræði að breyta lögum með þessum hætti eins og við erum að gera í dag og að þau rök að sveitarfélag hafi fengið styrk, hafi síðan selt framkvæmdina og leigt hana til baka, séu ekki nægileg til þess að breyta lögum.

Hitt er annað mál að ég er mjög veik fyrir öllum staðreyndum sem víkja að jafnræði sveitarfélags, því ég hef verið sveitarstjórnarmaður í tíu ár, verið sveitarstjórnarmaður í meiri hluta, og þekki næstum því allar hliðar þeirra mála sem upp kunna að koma í sveitarfélagi. Þetta verða því lokaorð mín í umræðunni.