Helgidagafriður

Þriðjudaginn 05. apríl 2005, kl. 17:19:28 (6622)


131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[17:19]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta mál lætur kannski ekki mikið yfir sér í byrjun en þegar betur er að gáð er það stærra en ætla mætti af þeirri athygli sem það hefur enn þá fengið, bæði efni þess sjálft og eins hvernig unnið hefur verið að frumvarpinu.

Það vekur satt best að segja mikla undrun að þetta frumvarp til laga um breyting á lögum um helgidagafrið skuli vera komið þó þetta langt hér án þess að meiri hávaði hafi hlotist af, því að í ljós kemur að hér á að fara að gera breytingu sem gengur í raun og veru lengra en upphafsmenn málsins báðu um. Einhvers staðar á leiðinni hafa menn ákveðið að fara út í róttækari breytingar, ganga meira á rétt starfsfólks í verslunum til að eiga einhverja lágmarksfrídaga eins og aðrir starfsmenn en meira að segja beðið var um af upphafsmönnum málsins sem eru atvinnurekendur í greininni. Það mun hafa verið svo að málið á sér upphaf í því að menn fóru fram á að verslanir gætu verið opnar á hvítasunnudag. Frumvarpið gengur hins vegar út á að þar til viðbótar skuli bæði föstudagurinn langi og páskadagur verða venjulegir verslunardagar eða opnunartíminn breytast með þeim hætti sem 1. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir og þar bætist við öll sú starfsemi sem þar er upp talin og þá ekki síst verslunarstarfsemi sem er á minna en 600 fermetrum þar sem a.m.k. tveir þriðju hlutar veltunnar er sala á matvælum, drykkjarvöru og tóbaki, eins og þar stendur.

Nú kann mönnum að þykja þetta ekki stórmál og það sé sjálfsagt að þjóna einhliða kröfum atvinnurekenda á þessu sviði eða þeirra sem þarna hafa ráðið ferðinni. Veit ég ekki hvort það er óumdeilt í röðum þeirra sem þarna hafa rekstur með höndum, það kynni að vera svo að þegar betur væri að gáð séu þeir hagsmunir býsna blendnir. Sú hefur a.m.k. orðið reynslan annars staðar að það hefur síður en svo þjónað t.d. smærri aðilum á þessu sviði vel sú þróun sem verið hefur í þá átt að keyra opnunartímann sífellt upp og lengja hann og að helst skuli slíkar verslanir standa opnar allan sólarhringinn. Það hefur m.a. sums staðar leitt til þess að rekstur minni verslana hefur ósköp einfaldlega orðið enn síður samkeppnisfær en áður var og er ekkert óskaplega flókið að skilja af hverju það er.

En ekki síður og kannski fyrst og fremst er þetta vinnuverndarspursmál í mínum huga. Það hefur reynst mjög erfitt að halda aftur af þrýstingi til þess að hafa vinnutíma starfsfólks í verslunum óhóflega langan eins og reglurnar eru fyrir. Það er líka mikil afturför ef þetta er að verða þannig að menn geta nánast ekki átt öruggan aðgang að neinum frídögum og sú stétt sem hér á í hlut, verslunarmenn, má nú sæta því að sá frídagur sem sérstaklega er helgaður stéttinni og nefndur svo, frídagur verslunarmanna, er það síður en svo. Þá er mesta ferðahelgi ársins og ekki njóta verslunarmenn mikillar hvíldar, margir hverjir, einmitt þá helgina. Þessu er öfugt farið t.d. með sjómannadaginn sem að vísu með hörku hefur tekist að gera að raunverulegum frídegi sjómanna með því að nú er þetta annar dagurinn eða tímabilið á ári hverju þar sem það er orðið algjörlega fast að skipin eru í höfn og sjómenn eiga frí. Hitt er þá jólin eða reyndar að mestu leyti jól og áramót eins og þetta hefur þróast.

Herra forseti. Ég ætla nú að spyrja hvort hæstv. viðskiptaráðherra sé við, eða er það dómsmálaráðherra sem flytur frumvarpið? Það væri gaman að vita hvort það á sér einhvern málsvara í röðum ríkisstjórnarinnar, hvort þeir sem flytja málið hingað inn séu til svara fyrir það. Mér sýnist að vísu formaður allsherjarnefndar sitja í salnum og trúlega í embættiserindum og það er gott. En ég hefði gjarnan viljað fá skýringar hjá þeim ráðherra sem lét undirbúa málið hvers vegna staðið var að verki með þeim hætti sem raun ber vitni.

Hvernig stendur á því að viðkvæmt mál af þessu tagi kemur inn á borð þingmanna og það kemur í ljós að ekkert samráð er haft við samtök verslunarmanna? Þeir senda hér á síðustu stundu hálfgert neyðarkall til þingsins um að málið verði skoðað. Hér er glæný ályktun frá því um mánaðamótin frá Landssambandi íslenskra verslunarmanna þar sem lýst er eindreginni andstöðu við fram komið frumvarp um breytingar á lögum um helgidagafrið sem felur í sér, eins og þar segir, miklar breytingar á högum þeirra sem starfa í matvöruverslun undir 600 fermetrum.

Ég hefði gjarnan viljað heyra hvort það er ekki rétt skilið að það sé hæstv. dómsmálaráðherra sem flytji þetta frumvarp og hafi undirbúið það, og ef forseti getur staðfest það vil ég inna hann eftir því hvar hæstv. dómsmálaráðherra er niður kominn.

(Forseti (BÁ): Í tilefni af þessum orðum vill forseti geta þess að hæstv. dómsmálaráðherra er ekki í húsinu. En eins og kunnugt er var það hann sem mælti fyrir málinu við 1. umr.)

Já, það er mikill skaði ef hæstv. dómsmálaráðherra getur ekki komið hér til umræðunnar því að ég hefði mikinn áhuga á að leggja fyrir hann spurningar um þessi efni. Ég vildi gjarnan líka heyra í formanni allsherjarnefndar ef hann getur gert hlé á einkafundi sínum úti í salnum og svarað því hvort afstaða Landssambands íslenskra verslunarmanna og Verslunarmannafélags Reykjavíkur og þeirra aðila sem hér hafa verið að álykta og leggjast gegn þessu frumvarpi á síðustu stundu hafi einhverju breytt varðandi viðhorf nefndarinnar. Kemur til greina að kalla málið til nefndar á nýjan leik, gera hlé á umræðunni og breyta því í það upprunalega horf sem beiðnin var þegar málið fór af stað, að það snúist þá bara um að gera hvítasunnudaginn að verslunardegi en hinir frídagarnir fái halda sér? Hvers vegna er þessum viðbótarhelgidögum bætt þarna inn þannig að í raun og veru er þá ekkert eftir, ef ég kann helgidagalöggjöfina rétt, nema jóladagur? Það er ekkert annað eftir sem menn eiga að geta treyst á að verða ekki ræstir út til vinnu.

Ég held að það sé líka ástæða til að ræða þetta í stærra samhengi. Ætla menn að stöðva sig af einhvers staðar á þessari braut eða ætla menn kannski að fylgja þessu eftir? Verður þróunin sú hér, eins og hún hefur orðið sums staðar í nágrannalöndunum, að það verði sífellt keyrt á rýmri og rýmri reglur um opnunartímann þangað til að hann er í raun og veru meira og minna orðinn allur sólarhringurinn. Það leiðir svo til þess að ýmsar minni verslanir, kaupmaðurinn á horninu og aðrir slíkir aðilar, eiga enn síður möguleika á að standast þessa samkeppni, því að auðveldara er að skipuleggja starfið í stærri einingum þannig að menn geti látið manna vaktir og standa þær og haft opið allan sólarhringinn?

Þannig hefur þróunin orðið í nágrannalöndunum. Tilhneigingin er sú að keyra á rýmkun á þessum reglum og menn gera það gjarnan undir því yfirskini — sem skyldi nú ekki vera hér líka — að það sé sérstaklega í þágu neytendanna. Þetta á allt að vera fyrir neytendurna svona öðrum þræði, að hinu leytinu fyrir verslunarrekendurna. En hver er útkoman fyrir neytendurna? Jú, hún er sú að þjónustan versnar víða í staðinn fyrir að batna. Hún versnar ef búðunum fækkar. Ef hverfabúðir leggjast niður er þetta ekki í þágu neytendanna, ekki þess hluta þeirra t.d. sem er verulega háður slíkri verslun. Dæmi um það er eldra fólk sem ekki á bíl eða ekki á hægt með að ferðast langar vegalengdir til að komast í stórmarkaði og stærri verslanir þó að þær séu opnar allan sólarhringinn.

Ég held að hv. þingmenn og nefndarmenn í allsherjarnefnd ættu t.d. að kynna sér umræður um þessi mál og þróunina eins og hún hefur orðið í Danmörku. Það eru mjög harðar deilur uppi í Danmörku núna um nákvæmlega sömu hluti og skylda þar sem hægri stjórnin þar — skylt er nú skeggið hökunni — við erum með sams konar fyrirbæri að mörgu leyti á Íslandi og Danir því miður búa við, svona hægri-miðju-vandræðastjórn sem eltir þessa hagsmuni í blindni og stundum dulbýr það og klæðir í þann búning að þetta sé gert fyrir neytendur sem kemur svo á daginn að er aldeilis ekki.

Hvernig er útkoman á þessu í Danmörku? Hún er sú að þar eru mjög hörð átök við samtök verslunarfólks og afstaða neytenda, neytendasamtaka og talsmanna neytenda er mjög að breytast þar sem menn eru einfaldlega að horfast í augu við það og sjá að þróunin hefur síður en svo verið að öllu leyti til góðs frá þeirra sjónarhóli séð.

Í Danmörku er verið að rýmka reglur um opnunartíma verslana á sunnudögum í mjög harðri andstöðu við samtök verslunarmanna. Þar er reyndar líka á ferðinni rýmkun á reglum um verslun með áfengi, þ.e. verið er að lengja þann tíma sólarhringsins og færa það yfir á helgidagana einnig, að verslanir þar sem áfengi er til sölu, eins og kunnugt er í Danmörku, megi selja þann varning. Þar hefur verið afmarkaður verslunartími sem hefur á köflum verið annar en sá sem mátt hefur hafa opið til sölu á almennum varningi. Það er fróðlegt fyrir þá sem eru sérstakir talsmenn þess hér að færa áfengi í búðirnar, þó að það sé ekki nema léttvín og bjór, að kynna sér hvernig hlutirnir eru líklegir til að þróast þegar það skref hefur einu sinni verið tekið.

Hvað hefur gerst í Danmörku? Jú, ég er með ágætisdæmi um það sem nú er verið að takast á um þar. Ég er með í höndunum 1. apríl útgáfuna af Metró-blaðinu á Jótlandi, og þetta er ekkert aprílgabb, þetta er alvörufrétt um þetta, um rýmkaðar reglur um opnunartíma verslana á sunnudögum og sömuleiðis hinar breyttu reglur um sölu á áfengi. Þar stendur hvorki meira né minna en að hjá samtökum þeirra sem eru í forsvari fyrir starfsmenn verslananna sé það sem heitir á dönsku „åbent raseri over udspillet“. Það er því bullandi reiði yfir því sem þarna er verið að leggja til. Rökin sem færð eru fram eiga að mörgu leyti við hér, a.m.k. ef þetta boðar áframhaldandi þróun í þessa átt. Ég tel því ástæðu til að spyrja grundvallarspurninga við umræðuna þó að menn telji kannski að málið láti ekki mjög mikið yfir sér. Reyndar sýnist manni að þetta sé að leka ansi mikið út á Íslandi og við vera aftarlega á merinni hvað varðar vinnuverndar- og hvíldartímamálin og almennt stöðu launamanna í þeim efnum. Þetta hafi því miður farið dálítið út um víðan völl hjá okkur. Og þegar maður skoðar hvernig staðið er að málum gagnvart starfsmönnum í verslunargeiranum og sér t.d. þau laun sem greidd eru unglingum sem þar eru mikill starfskraftur, alla vega í afleysingum, veit ég ekki alveg hvaða orð maður á að hafa um það, herra forseti. Það er ekki langt í að maður geti kallað þetta hálfgert þrælahald hvernig þar er að málum staðið. Ég held, ef eitthvað er, að ekki sé síður ástæða til að líta á hina hlið málsins og taka á í þeim efnum.

Hér er á ferðinni frumvarp þar sem menn hafa ákveðið að vera það rausnarlegir og örlátir að þeir ganga lengra en óskir voru um af hálfu þeirra sem munu hafa sett málið af stað. Þá verður lögverndaður frítími þess starfsfólks tæplega einn og hálfur sólarhringur, frá því kl. 18 á aðfangadag og jóladagur og búið, ef menn bæta við hvítasunnudegi, föstudeginum langa og páskadegi. Þetta er ekki sambærilegt við sjúkrahús eða aðra slíka starfsemi þar sem lífsnauðsynlegt er að haldið sé úti starfsemi alla daga ársins. Allra síst er hægt að segja að það eigi við um hverja einustu verslun í landinu að nauðsynlegt sé að allt sé opið helst allan sólarhringinn, helst alla daga ársins. Það er alls ekki þannig.

Það er illa komið í neysluþjóðfélagi okkar ef gera þarf ráð fyrir að menn séu svo fyrirhyggjulausir að þeir þurfi að geta keypt hvað sem er, hvenær sem er og hvar sem er. Það er umhugsunarefni ef það sjónarmið á eitt að ríkja að þær þarfir eigi að ganga fyrir og vera æðri öllu öðru, hagsmunum starfsmanna og jafnvel því að einhver sæmilega skikkanlegur reglurammi sé um starfsemina sem geri mönnum sæmilega jafnhátt undir höfði þannig að fjölbreytni geti blómstrað í greininni og litlar verslanir og stórar fái að dafna hlið við hlið o.s.frv., eins og ég hygg að flestir vilji að þetta sé.

Ég held að mikil nauðsyn sé á því að menn missi ekki tökin á hlutunum þannig að það verði t.d. eingöngu þrjár, fjórar risavaxnar verslunarmiðstöðvar, jafnvel í úthverfum eða órafjarlægðir frá þéttbýlum íbúðahverfum og þar verði svo engin þjónusta þannig að mönnum sé nauðugur sá kostur að eiga bíl eða hafa aðstoð til að komast í búðir, geta ekki einu sinni keypt dagsdaglegar neysluvörur einhvers staðar í nærumhverfi sínu. Er það geðsleg þróun, er hún fjölskylduvæn og félagslega aðlaðandi? Ég segi nei. Eiga menn ekki að hafa einhverja rænu í sambandi við þá hluti og þróun þeirra mála? Þetta er orðið að mjög miklu umfjöllunarefni og átakaefni víða á þéttbýlissvæðum í nágrannalöndunum þar sem farið er að setja mjög strangar skorður við þessari samþjöppun verslunarinnar. Menn eru jafnvel farnir að beita skipulagsákvörðunum til þess hreinlega að koma í veg fyrir að slík bákn rísi, sem tilhneigingin hefur talsvert verið til að fara út í, vegna þess að það er ekki einangruð ákvörðun.

Hvað þýðir það ef menn þjappa þjónustunni saman í mörg hundruð þúsund fermetra ferlíki? Það þýðir ofboðslega umferð með tilheyrandi umferðarmannvirkjum, loftmengun og hvað það nú er, þannig að þegar menn eru búnir að fá slíkt yfir sig sjá þeir og læra jafnvel af biturri reynslu að þetta var kannski ekki að öllu leyti svo sniðugt, það hefði kannski verið betra að skipuleggja hlutina einhvern veginn öðruvísi. Mér finnst fullkomlega gilt að velta þeim flötum upp í umræðunni í tengslum við helgidagamálið hér.

Ég er að hugsa um að hafa ræðuna ekki lengri að sinni, herra forseti. Ég áskil mér allan rétt til að taka til máls aftur. Ég hefði gjarnan viljað fá hæstv. dómsmálaráðherra til umræðunnar. Það getur ekki verið að það liggi nein reiðinnar ósköp á með þessi lög, ekki nema það sé sá hvítasunnudagur sem fram undan er sem menn séu sérstaklega að hugsa um að gera að verslunardegi með því að hafa gildistöku laganna tafarlausa. En mér finnst ekki sérstaklega gæfulegt að ætla að skella slíkri breytingu á með nokkurra vikna fyrirvara í fullkominni andstöðu við heildarsamtök þeirra sem eiga við þetta að búa eða verða aðallega fyrir barðinu á þessu, sem eru auðvitað samtök verslunarmanna.

Öðruvísi mér áður brá en að íhaldið væri sérstaklega að níðast á þeim geira verkalýðshreyfingarinnar sem hann hefur helst talið sig eiga fylgi að fagna meðal og státar sig af að vera í forustu fyrir. Hér sátu kappar á þingi sem áttu rætur í m.a. verslunarmannasamtökunum, eins og Guðmundur H. Garðarsson og fleiri góðir menn. En þeir eru fjarri góðu gamni eins og kunnugt er og kannski er unga íhaldið ekkert að púkka upp á þetta og telur það ekki skipta neinu máli þó að hörð mótmæli berist frá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur og Landssambandi verslunarmanna. Það eru þá nokkuð nýir tímar uppi í því sambandi.