Helgidagafriður

Þriðjudaginn 05. apríl 2005, kl. 17:44:41 (6625)


131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[17:44]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta kemur frá dómsmálaráðherra sem gerði grein fyrir málinu við 1. umr. Ég þekki ekki þá forsögu málsins sem hér er vísað til. Ég get einungis bent á að þegar að því kemur að jafna þennan aðstöðumun hlýtur að verða jafnlangt gengið og við á um þá aðra sem falla undir þessar tilteknu greinar í frumvarpinu, þ.e. þessir þrír dagar hafa verið teknir saman í lögunum og gengið út frá því að svo verði áfram gert við þá breytingu sem hér er fram komin.

Annars vil ég segja, hæstv. forseti, að í máli hv. þingmanns kom fram að ákveðin þörf væri á að koma til móts við þarfir t.d. ferðamanna á þessum tilteknu dögum. Þetta frumvarp snýst ekki um neitt annað en það, þ.e. að viðurkenna þá þörf. Ég er ósammála hv. þingmanni um að það sé óeðlilegt að matvöruverslunum, með nánar tilgreindum skilyrðum eins og um er að ræða í þessu frumvarpi, sé gert mögulegt að bjóða fram matvöru á sama tíma og matvara stendur til boða annars staðar.

Menn kunna að vera þeirrar skoðunar að ástæða sé til að þrengja þetta enn frekar en gert er í frumvarpinu og það er sú leið sem menn hafa kosið að fara annars staðar, til að mynda í Noregi. Ég hygg að í Noregi hafi menn notað 100 fermetra viðmiðið. Mér finnst það of langt gengið. Hér er gert ráð fyrir 600 fermetrum þegar horft er til þess svæðis þar sem matvöruverslunin er rekin. Það þýðir einmitt að stórmarkaðir falla ekki undir þessa breytingu á lögunum. Þeir verða ekki opnir viðkomandi daga vegna þess að þeir eru stærri en 600 fermetrar.