Leigulóðaréttindi sumarhúsaeigenda

Miðvikudaginn 06. apríl 2005, kl. 12:43:23 (6658)


131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Leigulóðaréttindi sumarhúsaeigenda.

645. mál
[12:43]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Herra forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra um sumarbústaðalóðir í ljósi þeirra staðreynda að nú eru um 12–13 þúsund sumarbústaðir í eigu landsmanna og flestir þeirra eru þannig í sveit settir að um leigulóðir er að ræða. Gerð var könnun árið 2004 í júní og september sem unnin var fyrir samgönguráð um aðgengi landsmanna að sumarhúsum. Í 1.100 manna úrtaki kemur fram að 19% eiga sumarhús, 27% hafa aðgang að sumarhúsum, eða samtals 46% landsmanna sem tengjast sumarhúsum á einhvern hátt.

Dæmi er um að jörð með sumarbústöðum á leigulóðum með 20 ára leigusamning hafi verið seld. Það hafi verið gerðir leigusamningar jafnvel frá 1980, til 20 ára, og þá nálgast að leigusamningi sé lokið. Dæmi er um að hinn nýi kaupandi jarðar hafi sett mönnum afarkosti annaðhvort með því að hækka lóðaleigu verulega eða bjóða mönnum spilduna á ofurverði. Að öðrum kosti verði menn að fara með sumarhúsið sitt. Ég beini þessari spurningu eðlilega til félagsmálaráðherra m.a. vegna þess að við erum með dæmi um byggingameistara sem byggja blokkir og það fellur undir iðnaðarráðuneyti á meðan byggingin stendur yfir. Síðan eru stofnuð húsfélög og þá falla þau lög og þær reglugerðir að félagsmálaráðherra. Þess vegna er eðlilegt að ég beini spurningu minni til félagsmálaráðherra varðandi réttarstöðu þessa fólks og hvort ekki sé eðlilegt að hennar sé gætt og hef þess vegna lagt fram eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. félagsmálaráðherra:

1. Hver er réttur þeirra sem leigja lóð af landeiganda undir sumarbústað til að bregðast við óeðlilegri hækkun afgjalda eða annarri skerðingu réttinda?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að réttur lóðaleiguhafa í þessu sambandi verði skilgreindur nánar í lögum?