Leigulóðaréttindi sumarhúsaeigenda

Miðvikudaginn 06. apríl 2005, kl. 12:46:19 (6659)


131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Leigulóðaréttindi sumarhúsaeigenda.

645. mál
[12:46]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Fyrst er að segja að ekki hafa verið sett sérstök lög hér á landi um samninga um lóðir undir sumarbústaði. Um slíka samninga gilda því almennar reglur kröfu- og samningsréttar. Má sérstaklega benda á lög um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936. Í norrænum rétti er fátítt að sett hafi verið lög sem almennt gilda um leigusamninga. Hér hafa hins vegar verið sett lög um nokkrar tegundir slíkra samninga, samanber húsaleigulög, nr. 36/1994, og ábúðarlög, nr. 80/2004.

Um leigusamninga gildir hins vegar regla hins almenna samningsréttar um samningsfrelsi borgaranna og geta því efni og kjör samnings verið að vild svo fremi að samningsákvæði séu ekki andstæð lögum. Við samningsgerð er mikilvægt að huga að því að í samningnum séu skýr ákvæði um leigutíma og hugað sé að samningslokum. Í upphafi skyldi endinn skoða.

Ákvæði III. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, með síðari breytingum, veita þó samningsaðila ákveðna vernd. Í því sambandi má sérstaklega benda á 36. gr. laganna þar sem segir í 1. mgr. að samningi megi víkja til hliðar í heild eða að hluta eða breyta ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við mat samkvæmt ákvæðinu er litið til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Á þetta ákvæði gæti hugsanlega reynt ef deilt er um óeðlilega hækkun afgjalda gildandi samnings þótt ekki sé mér kunnugt um að slík mál hafi komið fyrir dómstóla.

Um réttarstöðu við lok tímabundins leigusamnings er unnt að benda á a.m.k. einn dóm Hæstaréttar í máli nr. 135/1998, þar sem leigutökum var gert að fjarlægja bótalaust sumarbústað af landi sem leigt hafði verið til 25 ára, enda ekki um annað samið. Ekki verður fullyrt, hæstv. forseti, hvort og þá hvaða fordæmisgildi sá dómur kynni að hafa.

Í öðru lagi spyr hv. fyrirspyrjandi hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að réttur lóðaleiguhafa verði skilgreindur nánar í lögum í þessu sambandi. Varðandi það get ég upplýst að á síðasta áratug fór í tvígang fram úttekt á málefnum sumarhúsaeigenda á vegum félagsmálaráðuneytisins, einkum með tilliti til laga um tekjustofna sveitarfélaga og raunar einnig laga um skipulags- og byggingarmál.

Fyrri úttektin var unnin af starfshópi sem skipaður var í apríl 1993 og skilaði áliti rúmu ári síðar. Starfshópurinn skoðaði m.a. möguleika á gerð staðlaðs eyðublaðs fyrir lóðasamninga milli landeiganda og væntanlegs sumarhúsaeiganda en taldi að lokum ekki ástæðu til slíks. Á hinn bóginn taldi hópurinn rétt að í lögum og reglugerðum kæmu fram þau atriði sem nauðsynlegt væri að tilgreina í lóðasamningi svo réttarstaða aðila væri ljós. Starfshópurinn lagði áherslu á að ákvæði skipulags- og byggingarlaga er snerta byggingu sumarbústaða yrðu endurskoðuð í heild sinni. Haft muni að leiðarljósi að yfirsýn um réttindi og skyldur sumarhúsaeigenda, landeigenda og sveitarfélags verði skýrari. Sérstaklega var nefnt að kveða ætti á um að lóðaleigusamningur yrði að vera í samræmi við skipulagsskilmála.

Síðari úttektin var unnin af nefnd sem var skipuð hinn 23. febrúar 1996 og skilaði áliti í lok maí sama ár. Á árinu 1996 var gerð breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga að hluta til á grundvelli álits þeirrar nefndar. Um stöðlun leigusamninga segir í áliti síðari nefndarinnar að staðlaðir samningar um leigu lóða í þéttbýli séu í notkun hjá flestum sveitarfélögum, t.d. hafi Þingvallanefnd látið lögfræðistofu útbúa fyrir sig form lóðaleigusamnings. Enn fremur sé hægt að benda á samninga sem notaðir eru þar sem sveitarfélög sjá um úthlutun sumarhúsalóða.

Frekari skoðun, hæstv. forseti, á réttindum sumarhúsaeigenda hefur ekki farið fram á vegum félagsmálaráðuneytisins. Álitamálið sem þessi fyrirspurn beinist að flokkast undir skipulags- og byggingarmál og er því á forræði umhverfisráðuneytis. Ég er engu að síður tilbúinn að taka þátt í áframhaldandi umræðu um þessi mál. Ég tel raunar að réttindi sumarhúsaeigenda séu a.m.k. á köflum fyrir borð borin og þar megi úr ýmsu bæta.